Dýrast hjá Pennanum – ódýrast í A4

Skólabækurnar eru misdýrar.
Skólabækurnar eru misdýrar. mbl.is/Styrmir Kári

Töluverður munur var á hæsta og lægsta verði í verðkönnun Verðlagseftirlits ASÍ á nýjum og notuðum námsbókum. Í flestum tilfellum eða í 18 tilfellum af 35 var 700-1.500 kr. munur á hæsta og lægsta verði á nýjum námsbókum en í þremur tilfellum var enn meiri munur eða 2.000-3.000 kr.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ASÍ.

Penninn- Eymundsson var oftast með hæsta verðið á nýjum námsbókum en Forlagið næst oftast. A4 var oftast með lægsta verðið, en Iðnú næst oftast.

Penninn-Eymundsson og A4 voru með mesta úrvalið af notuðum námsbókum. Í öllum tilfellum var verðið á notuðum námsbókum töluvert lægra í A4 en í Pennanum-Eymundssyni. Heimkaup býður einnig upp á notaðar námsbækur en einungis tveir titlar sem voru til skoðunar í könnuninni voru til í þeirri verslun.

Í flestum tilfellum var mikill munur á hæsta og lægsta verði á nýjum námsbókum í könnuninni en í 18 tilfellum var verðmunurinn á bilinu 700-1.400 kr. Enn meiri verðmunur var á nokkrum bókum en mestur verðmunur var á Íslenskri málsögu eftir Sölva Sveinsson. Hæsta verðið var í Pennanum, 6.499 kr. en það lægsta í A4, 2.799 kr. Þá var 2.008 kr. munur á hæsta og lægsta verði á dönsku les- og verkefnabókunum Paa vej eftir Elísabetu Valtýsdóttur og Ernu Jessen. Hæst var verðið í A4, 7.998 kr. en lægst í Iðnú, 5.990 kr.

Úrvalið af nýjum námsbókum var mest í A4 þar sem 34 titlar af 35 voru fáanlegir, næst flestir fengust í Pennanum-Eymundsson, 30 en fæstir í Heimkaupum, 25. Í Forlaginu fengust 28 titlar og 27 í Iðnú.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert