Hringdi 122 sinnum og sendi bréf úr fangelsinu

Fangelsið á Hólmsheiði.
Fangelsið á Hólmsheiði.

Kamilla Ívarsdóttir, 18 ára stúlka sem varð fyrir stórfelldri líkamsárás af hálfu fyrrverandi kærasta síns á síðasta ári, hefur kært hann fyrir grófa líkamsárás gegn sér skömmu eftir að hann losnaði úr fangelsi. Þá sætir maðurinn ákæru fyrir ítrekuð brot gegn nálgunarbanni, en hann hringdi 122 sinnum í Kamillu úr fangelsinu á Hólmsheiði, að því er greint er frá á RÚV.

Maðurinn var í mars á þessu ári dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir gróft ofbeldi og hótanir, en í nóvember á síðasta ári réðst hann á þáverandi kærustu sína, Kamillu, sem þá var 17 ára gömul, við höfnina í Reykjavík. Árásin var hrottaleg og rannsakaði lögreglan málið upphaflega sem tilraun til manndráps.

Nú hefur lögreglan ákært manninn fyrir ítrekuð brot gegn nálgunarbanni og var ákæran þingfest fyrir dómi í dag, en auk þess sem hann hringdi samtals 122 sinnum í Kamillu úr fangelsissímanum á Hólmsheiði sendi hann einstaklinga út úr fangelsinu með bréf til hennar.

„Þetta er bara búið

Þegar dómur var kveðinn upp í mars hafði maðurinn setið í gæsluvarðhaldi í fimm mánuði. Tekið var tillit til ungs aldurs hans þegar hann braut af sér, og var honum því sleppt úr fangelsi nokkrum dögum eftir að dómur féll. Tveimur mánuðum síðar, í maí, réðst hann aftur á Kamillu, líkt og hún hefur greint frá á Instagram.

„Hann tekur mig upp yfir axlirnar á sér og hendir mér í gólfið, þannig að ég skalla gólfið og missti meðvitund í smástund því ég skall svo fast á gólfið. Síðan nær hann mér þannig, ég sný mér svona við og er að skríða upp í rúmið. Og tekur mig kyrkingartaki þar. Og ég var ekki einu sinni að berjast á móti honum því ég var bara: Ókei, þetta er bara búið sko. Og svo hélt hann hníf upp við hálsinn á mér og lýsti því fyrir mér hvað hann myndi gera ef ég myndi fara frá honum. Drepa fjölskylduna mína og mig,“ segir Kamilla í samtali við RÚV.

Árásin hefur verið kærð og er nú í rannsókn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Maðurinn var úrskurðaður í nálgunarbann til þriðja desember á grundvelli málsins, en situr ekki í gæsluvarðhaldi.

Sami maður var einnig handtekinn í sumar fyrir líkamsárás gegn barnsmóður sinni, að því er fram kemur í frétt RÚV, og hefur lögregla hefur það mál til rannsóknar. 

Ríkissaksóknari áfrýjaði dóminum sem féll í mars til Landsréttar. Kamilla og fjölskylda hennar bíða þess nú að málið verði tekið fyrir þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert