„Tók meðvitaða ákvörðun“

Þeir Torstein Lindquister héraðssaksóknari, vinstra megin, og Bjørn Andre Gulstad, …
Þeir Torstein Lindquister héraðssaksóknari, vinstra megin, og Bjørn Andre Gulstad, verjandi Gunnars Jóhanns Gunnarssonar, fluttu lokaræður sínar á síðasta degi aðalmeðferðar Mehamn-málsins í dag og stóð þinghald fram undir kvöld. Vænta má dóms á næstu þremur vikum. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ákærði hafði næg­an tíma og tók meðvitaða ákvörðun,“ sagði Tor­stein Lindquister héraðssak­sókn­ari þegar þeir Bjørn Gulstad verj­andi tók­ust enn á í Mehamn-mál­inu í dag, í síðasta sinn fyr­ir héraðsdómi en aðalmeðferð máls­ins lauk und­ir kvöld og tók Gulstad sér þrjár klukku­stund­ir í lokaræðu sína að sögn áhorf­anda í Héraðsdómi Aust­ur-Finn­merk­ur í Vadsø sem mbl.is ræddi við fyr­ir skömmu.

Hafnaði sak­sókn­ari þeirri skýr­ingu varn­ar­inn­ar að slys hefði orðið þegar Gunn­ar Jó­hann Gunn­ars­son heim­sótti Gísla Þór Þór­ar­ins­son hálf­bróður sinn að morgni 27. apríl í fyrra í Mehamn og þeir tók­ust á um hagla­byssu sem Gunn­ar hafði meðferðis.

Kveður at­b­urðarás styðja ásetn­ing

Kvað sak­sókn­ari langa rás at­b­urða, þar á meðal fjölda hót­ana Gunn­ars í garð Gísla, dag­ana fyr­ir at­b­urðinn, sýna fram á að ákær­an um mann­dráp af ásetn­ingi væri hæfi­lega sett fram og gerði kröfu um 13 ára fang­els­is­dóm í lokaræðu sinni.

Gulstad mót­mælti mati ákæru­valds­ins harðlega og benti á fjölda gagna í mál­inu, svo sem þá niður­stöðu rann­sókn­ar­lög­regl­unn­ar Kripos að skot­vopnið hefði verið haldið galla sem gerði það að verk­um að mögu­legt væri að hleypa skoti af því án þess að taka í gikk­inn. Væri því skýr­ing ákærða, sem hann hefði haldið sig við frá fyrstu yf­ir­heyrslu, um að skot hefði hlaupið af þegar Gísli Þór greip til vopns­ins, full­kom­lega trú­verðug.

Kåre Skognes héraðsdómari segir dóms að vænta á næstu þremur …
Kåre Skog­nes héraðsdóm­ari seg­ir dóms að vænta á næstu þrem­ur vik­um. mbl.is/​Atli Steinn Guðmunds­son

Benti Gulstad enn frem­ur á að ætlaði maður sér virki­lega að ráða ann­an af dög­um með skot­vopni skyti sá varla í fót hins. Hót­an­ir frá því fyr­ir at­b­urðinn segðu ekk­ert um hvað í raun gerðist á staðnum. Hvatti Gulstad að lok­um Kåre Skog­nes héraðsdóm­ara og meðdóm­end­ur hans til að miða refs­ingu sína við fjög­ur og hálft til fimm ár af þeim sex ára refsiramma sem mann­dráp af gá­leysi býður upp á.

Geri sér ljóst að hátt­semi geti haft ban­væn­ar af­leiðing­ar

„Strax eft­ir hand­tök­una sagðist ákærði hafa drepið bróður sinn án þess að minn­ast nokkuð á að það hefði verið slys,“ sagði sak­sókn­ari og kvað alla hegðun Gunn­ars þá um nótt­ina hafa bent til þess að hann hefði ákveðið at­b­urðarás­ina af kost­gæfni.

Rakti hann ferðir Gunn­ars sem lokið hefði heima hjá Gísla þar sem hann beið þess vopnaður að hús­ráðandi kæmi heim. Benti Lindquister á að mann­dráp gæti verið af ásetn­ingi þótt ákærði hafi ekki verið harðákveðinn í að ráða öðrum bana. Ásetn­ing­ur­inn miðist við að sak­born­ing­ur geri sér ljóst að hátt­semi hans geti hugs­an­lega haft ban­væn­ar af­leiðing­ar og taki engu að síður meðvitaða ákvörðun um að halda áfram. Sagði Lindquister úti­lokað að Gunn­ar hefði ekki íhugað þau mála­lok sem urðu raun­in.

Mette Yvonne Larsen réttargæslulögmaður spáði 13 til 15 ára dómi …
Mette Yvonne Lar­sen rétt­ar­gæslu­lögmaður spáði 13 til 15 ára dómi í Mehamn-mál­inu þegar mbl.is ræddi við hana. Sak­sókn­ari gerði í dag kröfu um 13 ár og verj­andi krafðist fjög­urra og hálfs til fimm ára svo mikið ber í milli. mbl.is/​Atli Steinn Guðmunds­son

Mette Yvonne Lar­sen, rétt­ar­gæslu­lögmaður brotaþola máls­ins, kvaðst fall­ast á það með ákæru­vald­inu að úti­lokað væri að um slys hefði verið að ræða. Aðkoma Lar­sen að mál­inu snýr einkum að bóta­kröfu Elenu Unde­land, fyrr­ver­andi kær­ustu Gísla, og barna þeirra Gunn­ars, auk erfðamála, en Lar­sen á sér lang­an starfs­fer­il sem verj­andi og sagði í sam­tali við mbl.is á dög­un­um að hún reiknaði með 13 til 15 ára dómi, maður kæmi ekki með hlaðna hagla­byssu ætlaði hann sér ekki að gera neitt.

Skog­nes héraðsdóm­ari kvaðst reikna með að dóm­ur í Mehamn-mál­inu lægi fyr­ir á næstu þrem­ur vik­um. Miðað við hve mikið hef­ur borið í milli í mála­til­búnaði sókn­ar- og varn­ar­hliðar og vænt­ing­um um refs­ingu má telja víst að mál­inu verði áfrýjað til Lög­manns­rétt­ar Háloga­lands í Tromsø.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert