Þrjú sækja um í Landsrétti

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hallur Már

Þrjú sóttu um embætti dóm­ara við Lands­rétt sem aug­lýst var laust til um­sókn­ar 20. nóv­em­ber. Meðal um­sækj­enda er Jón Finn­björns­son, dóm­ari við rétt­inn, en hann er einn þeirra fjög­urra dóm­ara sem Lands­rétt­ar­málið svo­kallaða sner­ist um.

Þegar dóm­stóll­inn var stofnaður lagði hæfn­is­nefnd mat á hæfni um­sækj­enda. Þáver­andi dóms­málaráðherra breytti upp­röðun­inni áður en til­lag­an var lögð fyr­ir Alþingi og samþykkt. Var Jón einn fjög­urra dóm­ara sem hafði færst inn á lista dóms­málaráðherra en hafði ekki verið meðal efstu á lista hæfn­is­nefnd­ar­inn­ar.

Þegar dóm­ur Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu lá fyr­ir í fyrra óskaði Jón eft­ir launuðu leyfi og fylgdu hinir dóm­ar­arn­ir þrír, þau Ásmund­ur Helga­son, Arn­fríður Ein­ars­dótt­ir og Ragn­heiður Braga­dótt­ir, á eft­ir hon­um og óskuðu eft­ir launuðu leyfi. Síðan þá hafa þau þrjú sótt um laust embætti við Lands­rétt og verið skipuð á ný, en þetta er í fyrsta skiptið sem Jón sæk­ir um embættið að nýju.

Um­sækj­end­ur í þetta skiptið voru þau:

  1. Jón Finn­björns­son, dóm­ari við Lands­rétt
  2. Ragn­heiður Snorra­dótt­ir héraðsdóm­ari
  3. Sím­on Sig­valda­son héraðsdóm­ari

Skipað verður í embættið hið fyrsta eft­ir að dóm­nefnd um hæfni um­sækj­enda um dóm­ara­embætti hef­ur lokið störf­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert