„Átti erfitt með að hemja mig“

Viktor náði ansi mögnuðu myndefni úr lofti af eldgosinu í …
Viktor náði ansi mögnuðu myndefni úr lofti af eldgosinu í Geldingadölum. Mynd/Viktor Aleksander Bogdanski

Það eru fáir staðir á Íslandi um þess­ar mund­ir sem hafa verið fest­ir jafn ræki­lega á filmu og gossvæðið í Geld­inga­döl­um. Drón­ar hafa verið nýtt­ir til hins ýtr­asta og það var eng­in und­an­tekn­ing hjá Vikt­ori Al­eks­and­er Bogdanski sem heim­sótti svæðið í vik­unni og náði ansi til­komu­miklu mynd­efni. Drón­inn, sem var glæ­nýr, bráðnaði ei­lítið í at­lögu sinni við eld­fjallið, en hann tór­ir enn. 

Vikt­or, sem er eig­andi Blind­spot sem sér­hæf­ir sig í gerð aug­lýs­inga og kynn­inga­efn­is, fór, ásamt tveim­ur öðrum, á gossvæðið síðdeg­is sl. þriðju­dag, en þá var ný­búið að stika leiðina yfir í Geld­inga­dali. Þetta er í fyrsta sinn sem hann stend­ur í ná­vígi við eld­gos sem hann lýs­ir sem magnaðri upp­lif­un.

„Það var fullt af fólki og gott veður. Þetta var dá­lítið eins og þjóðhátíðarstemn­ing. Við horfðum yfir allt, fólk var í daln­um, sat al­veg við hraunið að hlýja sér þar. Fullt af drón­um á lofti, þyrl­ur og flug­vél­ar. Maður fann al­veg drun­urn­ar í jörðinni sem var al­veg geggjað að upp­lifa,“ seg­ir Vikt­or í sam­tali við blaðamann. 

Viktor Aleksander Bogdanski, eigandi Blindspot.
Vikt­or Al­eks­and­er Bogdanski, eig­andi Blind­spot. Ljós­mynd/​Aðsend

Gat ekki farið nær

Á þriðju­dag var hins veg­ar til­gang­ur­inn að mynda svæðið úr lofti. „Ég keypti dróna sama dag og tókst að bræða hann, að hluta, und­ir drón­an­um. Þannig að skynj­ar­arn­ir eru í raun ónýt­ir og svo ein­hverj­ar fest­ing­ar sem losnuðu. Hann er virk­ur samt. Það eru bara nokkr­ir hlut­ir sem eru verr farn­ir,“ seg­ir hann. Drón­inn fór næst um ein­um metra frá kvik­unni sem hafði flætt um dal­inn með fyrr­greind­um af­leiðing­um fyr­ir flygildið. 

Vikt­or og sam­ferðamenn hans fóru sjálf­ir ansi ná­lægt hraun­inu, en hann seg­ir að þeir hafi staðið í um fimm metra fjar­lægð frá því. „Ég gat ekki farið nær, það var bara það heitt.“

Aðspurður seg­ir Vikt­or að hóp­ur­inn hafi verið vel bú­inn og verið m.a. með gasgrím­ur meðferðis. Hann seg­ir enn­frem­ur að lög­regl­an og fé­lag­ar í Slysa­varna­fé­lag­inu Lands­björg hafi verið áber­andi á svæðinu og að þeir hafi verið dug­leg­ir að liðsinna þeim sem voru með spurn­ing­ar eða vantaði ráðlegg­ing­ar. 

Töku­menn á tæp­asta vaði

Vikt­or seg­ir að það hafi verið ansi knapp­ur tími fyr­ir þá til að mynda svæðið því þegar þeir komu á staðinn, um kl. 16:20, hafi verið til­kynnt að það ætti að loka svæðinu kl. 17. „Þá voru enn 20 mín­út­ur eft­ir af göng­unni. Þannig að ég var orðinn ansi smeyk­ur um að ná engu efni, þannig að við hlaup­um af stað og erum al­veg bún­ir á því. Stopp­um og drit­um og drit­um, en svo virðist vera að það hafi verið mun meiri vind­ur en þeir [al­manna­varn­ir] áætluðu, geri ég ráð fyr­ir. Af því að þeir lokuðu svo ekki svæðinu fyrr en sjö.“

Í mynd­skeiðinu má meðal ann­ars sjá til­komu­mikið skot þegar það brotn­ar hluti af kviku­op­inu sem fell­ur ofan í gló­andi kvik­una. „Ég hef ekki séð neitt svona skot áður. Þegar ég var að taka þetta upp þá átti ég erfitt með að hemja mig; að hreyfa ekki putt­ana þegar ég var að stýra drón­an­um,“ seg­ir Vikt­or sem stefn­ir á að heim­sækja svæðið aft­ur fljót­lega til að njóta upp­lif­un­ar­inn­ar enn bet­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert