Ríkisendurskoðun hefur birt skýrslu sína um aðkomu Samgöngustofu og Isavia að starfsemi og rekstri WOW air í aðdraganda gjaldþrots flugfélagsins í mars 2019. Í síðustu viku var greint frá innihaldi skýrslunnar, meðal annars að eftirliti hafi verið verulega ábótavant.
Í niðurstöðunum segir að Samgöngustofa hafi í einhverjum tilfellum haft viðskiptalega hagsmuni WOW air að leiðarljósi í ákvörðunartöku, fram yfir þau viðmið og sjónarmið sem gilda um eftirlit og aðhald.
Samgöngustofa er þar gagnrýnd fyrir að hafa ekki fellt flugrekstrarleyfi WOW air tímabundið úr gildi eða afturkallað það en reglugerð Evrópuþingsins og -ráðsins kveði á um skyldu stofnunarinnar til þess að gera slíkt, geti flugfélag ekki staðið við raunverulegar skuldbindingar.