Óla Erni Andreassen brá heldur í brún þegar hann rak augun í flugvél merkta fallna flugfélaginu WOW Air á flugvellinum í borginni Krabi á Taílandi.
„Þetta var svolítið sérstakt, ég sá vélina á planinu og tók mynd, svo er ég bara kallaður út í þessa sömu vél,“ segir Óli. Hann var nýlentur í höfuðborginni Bangkok þegar mbl.is náði tali af honum en hann vakti fyrst athygli á vélunum í innleggi á facebookhópnum Fróðleiksmolar um flug.
„Ég neita því ekki að það var heldur heimilislegt að sjá þessa vél þarna á planinu og ganga eftir gólfteppinu sem stóð á WOW.“
Um er að ræða flugvél sem flugfélagið Thai Vietjet Air notast við í innanlandsflugi. Flugfélagið hefur, að sögn Óla, sem er mikill áhugamaður um flug, líklegast þurft vél í loftið sem fyrst og ekki haft tíma eða fjármuni til þess að mála vélina að nýju.
„Það kostar jú nokkrar milljónir að breyta um merkingar og innréttingar í vélum, þeir hafa ekki haft fyrir því og þurftu sennilega að byrja að fljúga sem fyrst.“
Þá er íslenskan áberandi í vélinni.
„Þetta er allt á íslensku, „loka“ og „opna“ stendur á neyðarútgöngum. Ég velti því fyrir mér hvort flugfreyjur og flugþjónar hafi hreinlega lært þessi íslensku orð!“
Spurður út í erindagjörðir sínar í Taílandi segist hann vera í einhvers konar blöndu af jóla-, vetrar- og uppsöfnuðu sumarfríi. Hann heldur þar jól og áramót með fjölskyldunni en hann býr og starfar í fjölmiðlum úti í Danmörku.
Taíland er að miklum hluta búddatrúar en þó vottar fyrir jólastemningu þar eystra.
„Þeir skreyttu jólatré og spiluðu jólatónlist um jólin á meðan maður gekk þarna um í pálmastuttbuxum. Þetta er allt úr plasti og stakk mjög í stúf allt saman.“