Erla Bolladóttir, einn sakborninga í svokölluðum Guðmundar- og Geirfinnsmálum, fer fram á endurupptöku á sínu máli og gæti málið því farið fyrir Hæstarétt.
Erla vann mál fyrir Héraðsdómi í janúar sem lögmaður hennar Ragnar Aðalsteinsson kallaði „gríðarlegan áfangasigur“ í samtali við mbl.is eftir að dómurinn féll 4. janúar. Endurupptökunefnd hafnaði máli Erlu árið 2017 en ákveðið var að taka upp mál þeirra sem dæmdir voru fyrir aðild að hvarfi Guðmundar Einarssonar í Hafnarfirði í janúar 1974 og Geirfinns Einarssonar í Keflavík í nóvember árið 1974. Voru þeir sýknaðir í Hæstaréttir árið 2018.
4. janúar á þessu ári felldi Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurð endurupptökunefndar gagnvart Erlu úr gildi. Ragnar Aðalsteinsson staðfesti við mbl.is í dag að mál Erlu muni fara fyrir endurupptökudómstólinn.
Frá því niðurstaða féll í Héraðsdómi í janúar hefur að sögn Ragnars verið unnið að því að leggja málið fyrir endurupptökudómstólinn. Samstarfskona Ragnars, Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, mun reka málið fyrir hönd Erlu.
Erla Bolladóttir var ekki í hópi þeirra sem dæmd voru fyrir aðild að hvarfi mannanna tveggja og var sýknuð af þeirri ákæru í Hæstarétti á sínum tíma. Hún var hins vegar dæmd í Hæstarétti fyrir rangar sakargiftir með því að bera á fjóra nafngreinda menn að þeir hafi átt þátt í dauða Geirfinns.
Í janúar á þessu ári komst Héraðsdómur hins vegar að því að hún hafi ekki gerst sek um rangar sakargiftir eins og áður segir.