Mikilvægar spurningar um örlög þeirra einstaklinga sem dvöldu á vöggustofum í Reykjavíkurborg á síðustu öld eru hvergi sjáanlegar í markmiðum nefndarinnar sem fer fyrir rannsókn á starfseminni sem þar fór fram. Margt bendir til þess að sjálfsvíg og fíknivandamál séu algengari meðal þeirra sem þarna voru vistaðir sem börn.
Þetta segja Viðar Eggertsson leikstjóri og Árni H. Kristjánsson sagnfræðingur en þeir hafa verið í forsvari fyrir þann hóp einstaklinga sem var vistaður á vöggustofur sem börn. Þeir eru gestir í nýlegum þætti dagmála.
Rúmri hálfri öld eftir að sálfræðingurinn Sigurjón Björnsson vakti fyrst athygli á „stóhættulegri“ starfsemi vöggustofa í Reykjavík, hafa borgaryfirvöld bæði samþykkt og útvegað fjármagn í að ráðast í rannsókn á því sem þar fór fram.
Upphaflega var ákvörðuninni um rannsókn fagnað ákaflega af þeim sem málið snertir en tónninn í umræðunni hefur þó breyst töluvert síðan þá og hafa þeir sem börðust fyrir rannsókninni ekki verið sannfærðir um að borgaryfirvöld muni standa við loforð sín. Stórt bakslag kom síðan í síðasta mánuði þegar markmið rannsóknarinnar voru kynnt, þóttu þau bæði óljós og illa skilgreind.
„Það er í rauninni ekkert fast í hendi, við vitum í rauninni ekki hvað á að rannsaka fyrir utan þessa kynjafræðirannsókn,“ segir Árni.
Að sögn Viðars er mikill skortur á mikilvægum spurningum á borð við hvaða áhrif vistunin hafði á þau börn sem þarna voru, en ekki þurfi að efast um að þessar uppeldisaðferðir hafi verið slæmar.
„Hvernig hefur þeim reitt af í lífinu? Er algengara að þessi börn hafi orðið háð einhverskonar fíkniefnum? Er algengara að þau hafi orðið öryrkjar,“ spyr Viðar.