60 ára og eldri boðaðir í bólusetningu

Bólusetning við kórónuveirunni.
Bólusetning við kórónuveirunni. AFP/Christof Stache

Boðið verður upp á örvunarskammt af bóluefni við Covid-19 fyrir 60 ára og eldri í Laugardalshöll í lok september. Samhliða verður þeim sem vilja boðið upp á bólusetningu við inflúensu.

Bólusetningin fer fram á tveggja vikna tímabili, frá 26. september til 7. október, í anddyri Laugardalshallar. 

Þau sem hafa fengið þrjá skammta af bóluefni og hafa náð 60 ára aldri munu fá boð í bólusetningu. Minnst fjórir mánuðir verða að hafa liðið frá því viðkomandi fékk síðast bóluefni við sjúkdóminum.

Nýtt bóluefni í örvunarskammtinum 

Stefnt er að því að nota nýjar útgáfur af bóluefnum frá Moderna og/eða Pfizer sem eiga að virka betur gegn því afbrigðum veirunnar sem nú eru í gangi. Ef einhverjir hafa ekki fengið grunnbólusetningu munu viðkomandi fá upprunalegu bóluefnin þar sem ekki hefur verið staðfest að nýju bóluefnin séu jafnvirk þeim eldri við þá notkun, að því er kemur fram í tilkynningu heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Yngri en 60 ára sem vilja örvunarskammt er boðið upp á bólusetningu á heilsugæslustöðvum en þar er jafnframt í boði bólusetning við inflúensu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert