Endurupptökudómur hafnar beiðni Erlu

Erla Bolladóttir þegar Guðmundar- og Geirfinnsmálið fór fyrir Hæstarétt 2018.
Erla Bolladóttir þegar Guðmundar- og Geirfinnsmálið fór fyrir Hæstarétt 2018. mbl.is/Hari

Endurupptökudómur hefur hafnað beiðni Erlu Bolladóttur um um endurupptöku á máli Hæstaréttar nr. 214/1978 frá  22.  febrúar  1980,  að  því  er  varðar  rangar  sakargiftir  á  hendur  Magnúsi  Leópoldssyni,  Einari Gunnari Bollasyni, Valdimar Olsen og Sigurbirni Eiríkssyni. 

Úrskurðurinn féll 14. september. 

Fram kemur í úrskurðinum, að ekki verði fallist á að komin sé ný gögn eða upplýsingar sem ætla megi að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu máls Erlu ef gögnin eða upplýsingarnar hefðu komið fram áður en dómur gekk.

Þá er ekki fallist á að ætla megi að lögregla ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins.

Þá er ekki fallist á að verulegar líkur hafi verið leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli Erlu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

Loks er því hafnað að verulegir gallar hafi verið á meðferð málsins þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess. 

Með dómi Hæstaréttar 22. febrúar 1980 var Erla sakfelld fyrir rangar sakargiftir. Hún var dæmd fyrir að hafa á árinu 1976, ásamt öðrum, gerst sek um rangar sakargiftir  með því að bera á fjóra nafngreinda menn, að þeir hefðu átt hlut að dauða Geirfinns Einarssonar. Hafi það leitt til þess að mönnunum var gert að sæta langvinnu gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins. 

Í beiðni Erlu kemur fram, að hún takmarkist við sakfellingu um rangar sakargiftir. Í endurupptökubeiðinni er vísað til þess að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 4. janúar 2022 hafi úrskurður endurupptökunefndar verið felldur úr gildi. Hafi íslenska ríkið kosið að una þeim dómi og þar með rökstuðningi dómsins. Vísað er til fyrri beiðni Erlu 26. júní 2014 um endurupptöku málsins og þess getið að byggt sé á öllum sömu sjónarmiðum og þar voru rakin. Er byggt á því að þær forsendur sem niðurstaða héraðsdóms var reist á eigi að leiða til þess að fallist verði á beiðni Erlu. Ítarlega er farið yfir rökstuðning Erlu í  úrskurðinum. 

Það er hins vegar niðurstaða endurupptökudómsins að hafna beiðininni, sem fyrr segir, og er Erlu jafnframt gert að greiða þriggja milljóna kr. þóknun skipaðs verjanda síns.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka