Vörukarfa ASÍ hækkaði í fjórum af átta matvöruverslunum og lækkaði í fjórum verslunum á fjögurra mánaða tímabili, frá byrjun maí til byrjun september.
Mest hækkaði vörukarfan hjá Hagkaup, eða um 4,6% og næst mest hjá Heimkaup, um 4,3%. Þar á eftir kemur Bónus með hækkun upp á 0,9%, að fram kemur í tilkynningu frá Alþýðusambandi Íslands (ASÍ).
Tekið er fram að einungis séu birtar upplýsingar um verðbreytingar á milli mælinga. Ekki sé því um verðsamanburð að ræða.
Mest lækkaði vörukarfan í Krambúðinni, eða um 3,9% og um 2,6% hjá Kjörbúðinni. Einnig lækkaði vörukarfan í Nettó og Iceland, en verslanirnar eru allar hluti af verslanakeðju Samkaupa.
Mest hækkaði kjötvara og grænmeti í verði hjá Hagkaup en einnig verð á brauð- og kornvöru, mjólkurvörum og hreinlætis- og snyrtivörum. Hjá Heimkaup hækkaði verð í öllum vöruflokkum nema á grænmeti. Mest hækkun var á ávöxtum og kjötvörum.
Verð á ávöxtum og grænmeti lækkaði mest í könnuninni en lækkaði verð nokkuð á mjólkurvörum, ostum og eggjum í sumum verslunum. Verð á kjötvörum hækkaði hjá helmingi verslana en lækkaði hjá hinum helmingi verslananna.
Mest lækkaði verð á ávöxtum í Krambúðinni, eða um 15,5% á meðan vöruflokkurinn hækkaði um rúm 23% í Iceland. Verð á grænmeti lækkaði í 5 af 8 verslunum, mest í Kjörbúðinni, um 16,8%. Verð á kjötvöru lækkaði í fjórum verslunum af átta, mest um 8% í Nettó en mest hækkun varð á kjötvöru í Hagkaup, um 9,5%. Verð á brauð- og kornvöru hækkaði í meirihluta verslana sem og verð á hreinlætis- og snyrtivörum.