Styður Bjarna í aðgerðum vegna ÍL-sjóðs

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra, styður aðgerðir Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, þegar kemur að málefnum ÍL-sjóðs. Þetta kom fram í svari Guðmundar Inga í óundirbúnum fyrirspurnartíma í dag.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingkona Viðreisnar, spurði Guðmund Inga hvort hann væri væri sáttur við þá leið sem Bjarni fór, þ.e. að ræða við lífeyrissjóði um gera upp skuldir sjóðsins fyrr en áætlað hafði verið til að komast hjá miklum neikvæðum áhrifum á sjóðinn sem fyrirséð eru í framtíðinni. Sagði hún að með þessari leið væri fjármálaráðherra að færa skuldir Íbúðalánasjóðs og þar með ríkisins yfir á lífeyrisþega og launþega í landinu, en  Þorbjörg sagði að lífeyrissjóðir væru almenningur í landinu.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Sigurður Bogi

„Hinn svokallaði sparnaður felst sem sagt í því að aðrir eigi að taka reikninginn fyrir ríkið, að lífeyrissjóðir gefi eftir fjárhæðir og taki skuldbindingar í fangið. En gleymum því ekki að sjóðirnir eru almenningur í landinu,“ sagði Þorbjörg og bætti við að ráðherra hefði með hótunum boðið lífeyrissjóðum að semja við sig. Sagði hún það hins vegar ekki samninga. Meginreglan væri sú að standa við gerða samninga og „almenningur býr ekki við þann lúxus að breyta lánasamningi um leið og kjörin verða óhagstæð þótt það kæmi eflaust mörgum til góða í dag þegar vextir hafa margfaldast.“

Sagði Guðmundur að hann vonaðist til þess að Bjarni myndi ná árangri og lendingu í þessu máli og að það væri hagsmunamál fyrir almenning í landinu. Vísaði hann til þess að áætlað væri að kostnaður ríkisins gæti orðið 1,5 milljarðar á mánuði næstu árin ef ekkert yrði gert. „Ég get auðveldlega sagt að ég styð fjármálaráðherra í því sem hann er að gera, að reyna að semja um þetta við lífeyrissjóðina, og ég óska honum góðs gengis í því. Svo skulum við bara sjá til hvernig það gengur og hvort málið kemur hingað inn, en tökum eitt skref í einu,“ sagði Guðmundur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert