19 þúsund fermetrar og tekur 8.600 í sæti

Þjóðarhöll kynnt. Ásmundur Einar Daðason, Katrín Jakobsdóttir og Dagur B. …
Þjóðarhöll kynnt. Ásmundur Einar Daðason, Katrín Jakobsdóttir og Dagur B. Eggertsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ný þjóðarhöll í Laugardalnum verður 19 þúsund fermetrar að stærð og tekur 8.600 manns í sæti. Gert er ráð fyrir að hún taki 12 þúsund tónleikagesti. Heildarkostnaður verður í kringum 15 milljarðar króna. Framkvæmdir eiga að hefjast á næsta ári og stefnt er að verklokum árið 2025.

Þetta sagði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, á blaðamannafundi.

Þessi áætlun er byggð á skýrslu sérstakrar framkvæmdanefndar um frumathugun á framkvæmdum við þjóðarhöll.

Þjóðarhöllin verður staðsett við Suðurlandsbraut þar sem borgarlínan kemur.

Staðsetning hallarinnar.
Staðsetning hallarinnar. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Byggingin verður fjölnota mannvirki fyrir íþróttir, kennslu og viðburði. Verkefni vorsins er að hefja útboð og hönnun á framkvæmdinni og verður það byggt á því sem kemur fram í skýrslunni, sagði Ásmundur Einar. Samhliða því verður ákveðið hvernig eignarhaldinu verður háttað.

Fjölnota gólf og hreyfanleg sæti

Í skýrslu framkvæmdanefndarinnar kemur fram að í höllinni verði fjölnota gólf og sæti verði að hluta til hreyfanleg þannig að hægt verði að nýta megnið af gólfi hallarinnar frá degi til dags til íþróttaæfinga en höllin rúmi sömuleiðis stóra íþróttaviðburði, landsliðsleiki og tónleika.

Einnig á höllin að uppfylla kröfur alþjóðlegra íþróttasambanda þannig að hægt verði að spila leiki á stórmótum hér á landi.

Gert er ráð fyrir góðri tengingu og flæði milli þjóðarhallar, Laugardalshallar og Frjálsíþróttahallar fyrir iðkendur, gesti og starfsfólk. Staðsetning nýju hallarinnar verður sunnan Laugardalshallar upp að Suðurlandsbraut.

Fyrir börn og unglinga í Laugardal

Vinna að deiliskipulagi stendur yfir. Samhliða er verið að undirbúa útboð á hönnun og framkvæmd annars vegar og eftirliti hins vegar. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í byrjun árs 2024 og verkinu á að ljúka haustið 2025.

„Til þess að hún gangi eftir þá má ekkert klikka,“ sagði Ásmundur Einar um framkvæmdaáætlunina. 

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri nefndi að höllin verði m.a. notuð til æfinga fyrir börn og unglinga í Laugardal úr íþróttafélögunum Þrótti og Ármanni.

Snýst um fleira en að byggja hús

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði þjóðarhöllina snúast um framtíðarsýn, stórhug og að búa íþróttafólki viðunandi aðstæður til að ná árangri, auk þess að hvetja til íþróttaiðkunar í samfélaginu. Hún sagði verkefnið snúast um fleira en að byggja hús, það snerist líka um lýðheilsu og tengsl við menningu og aðra tómstundastarfsemi.

Tilkynning vegna hallarinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert