Fjölskyldan ekki lengur einangruð

Ævar Rafn Marinósson og fjölskylda voru einangruð á bæ sínum …
Ævar Rafn Marinósson og fjölskylda voru einangruð á bæ sínum Tunguseli í Þistilfirði þar til í síðustu viku. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er allt annað ástand,“ segir Ævar Rafn Marinósson bóndi í Tunguseli, um stöðuna í Hafralónsá í Þistilfirði, sem flæddi yfir veginn á gamlársdag og hélt honum lokuðum þar til í síðustu viku.

„Þetta hefur gengið mjög vel,“ segir hann í samtali við mbl.is og bætir við að það sé mikill léttir að vegurinn sé orðinn fær þó það komi fyrir að það flæði af og til yfir hann.

Hér má sjá færðina frá Tunguseli í Þistilfirði.
Hér má sjá færðina frá Tunguseli í Þistilfirði. Ljósmynd/Aðsend

Opnuðu gamla leið

„Áin hætti að renna yfir veginn og í kjölfarið var hægt að moka og opna gamla leið, það var á mánudag“ segir Sigurður Þór Guðmundsson, oddviti Svalbarðshrepps, í samtali við mbl.is. Hann segir leiðina þó ekki vera fólksbílafæra og að enn sé vatn og krapi á veginum.

Björn H. Sigurbjörnsson, yfirverkstjóri á þjónustustöð Vegagerðarinnar á Vopnafirði og Þórshöfn, segir að gripið hafi verið til þess ráðs að grafa meðfram veginum til að fleyta ánni meðfram honum.

„Áin hætti að flæða yfir veginn og í Kverkánna. Þá sendum við stóra hjólaskóflu í mokstur og hún opnaði veginn,“ segir hann í samtali við mbl.is. Hann segir nýja veginn ekki hafa verið opnaðan heldur sé um gamlan, greiðfærari veg að ræða.

„Við fylgjumst með aðstæðum en það losnar krapi reglulega sem lokar leiðinni. Við erum í góðu sambandi við Ævar og svo fylgist Vegagerðin sjálf með daglega.“

Góðlátlegt grín á þorrablóti

Ævar segir veginn frá Tunguseli hafa opnast á heppilegum tíma.

„Þeir náðu að opna rétt í tæka tíð svo við gátum farið og borgað okkur inn á Þorrablót um liðna helgi og látið gera góðlátlegt grín að okkur,“ segir Ævar og hlær dátt.

Hann segir að fjölskyldan sé þakklát öllum sem hönd hafa lagt á plóg. Hann segir ekki þægilegt fyrir verktakann að þurfa að stökkva reglulega í að hreinsa veginn og hann þakkar Vegagerðinni og sveitarstjórn fyrir farsælt og gott samstarf.

„Það hafa allir verið boðnir og búnir að hjálpa til. Þegar aðstæður leyfðu þá var gengið í málin af fullum þunga og við erum þakklát fyrir það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka