Bregðast þurfi við mannréttindabrotum í Tyrklandi

Fundinum var ætlað að varpa ljósi á niðurstöður úr ferð …
Fundinum var ætlað að varpa ljósi á niðurstöður úr ferð sem farin var til Tyrklands til þess að kortleggja stöðu mannréttindamála þar í landi mbl.is/Árni Sæberg

Kallað var eft­ir því, á opn­um fundi sem hald­inn var í Safna­hús­inu í dag, að Evr­ópuráðið komi á fót sér­stakri nefnd sem ein­beiti sér að þeim al­var­legu mann­rétt­inda­brot­um sem viðgang­ast í Tyrklandi. Fund­ur­inn var hald­inn í tengsl­um við leiðtoga­fund Evr­ópuráðsins. 

Staðan í Tyrklandi, þegar kem­ur að mann­rétt­ind­um, hef­ur ekki verið verri síðan Recep Tayyip Er­dog­an, tók við embætti for­seta þar í landi, árið 2014. 

Á fund­in­um var fjallað um stöðu mann­rétt­inda í Tyrklandi, hvaða úr­bóta væri þörf og á hvaða hátt alþjóðastofn­an­ir gætu beitt sér til þess að þær úr­bæt­ur næðu fram að ganga. Höfuðáhersla var lögð á fang­els­is­mál. 

Fundurinn var haldinn í Safnahúsinu á Hverfisgötu
Fund­ur­inn var hald­inn í Safna­hús­inu á Hverf­is­götu mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Ljósi varpað á niður­stöðu sendi­nefnd­ar

Ljósi var varpað á niður­stöður vett­vangs­ferðar sendi­nefnd­ar sem fékk það hlut­verk að ferðast til Tyrk­lands og kort­leggja stöðu mann­rétt­inda og mál­efni fanga þar í landi. 

Sendi­nefnd­ina skipuðu þau Ögmund­ur Jónas­son, fyrr­ver­andi þingmaður, ráðherra og þingmaður á þingi Evr­ópuráðsins en nú heiðurs­fé­lagi og Laura Ca­stel, þingmaður spænska þings­ins og full­trúi á þingi Evr­ópuráðsins, ásamt banda­ríska pró­fess­orn­um Den­is O’Hearn, en hann hef­ur sér­hæft sig í fang­els­is­mál­um og þekk­ir vel til fang­els­is­mála í Tyrklandi þar sem fjöldi póli­tískra fanga sæt­ir ein­angr­un­ar­vist og illri meðferð.

Á fund­inn mætti einnig Havin Gusener, blaðamaður og kven­rétt­inda­bar­áttu­kona, en hún hef­ur þýtt fjölda rit­verka Abdullah Öcal­ans, leiðtoga Kúrda. 

Kalla eft­ir aðgerðum Evr­ópuráðsins

Sendi­nefnd­in seg­ir nauðsyn­legt að stemma stigu við mann­rétt­inda­brot­um Tyrkja. Kallað er eft­ir því að Evr­ópuráðið komi á sér­stakri nefnd um mál­efnið. Nefnd­in skuli leggja mat á þau mann­rétt­inda­brot sem fram­in eru og leggja í kjöl­farið fram til­mæli um aðgerðir til rík­is­stjórn­ar Tyrk­land sem laga­nefnd Evr­ópuráðsins fylgi svo eft­ir. 

Til viðbót­ar við það er lagt til að eft­ir­lits­nefnd Evr­ópuráðsins með pynd­ing­um, CPT, beiti sér fyr­ir nauðsyn­leg­um aðgerðum.

Þá kalla þau eft­ir því að CPT veiti Tyrkj­um aðvör­un fyr­ir að hafa ekki ennþá brugðist við þeim end­ur­teknu til­mæl­um sem nefnd­in gefið út til þeirra í 24 ár, en frá ár­inu 1999 hef­ur CPT farið í níu heim­sókn­ir í fang­elsið á eyj­unni Imrali og und­an­tekn­inga­laust fylgt þeim heim­sókn­um eft­ir með at­huga­semd­um, sem Tyrk­ir hafa ekki enn brugðist við að nokkru leyti.

Abdullah Ocal­an, leiðtogi Kúrda, hef­ur setið í fang­elsi á eyj­unni síðan árið 1999 og þurft að þola marg­vís­leg mann­rétt­inda­brot, en hann hef­ur til að mynda sætt ein­angr­un í átta ár. Ocl­an er tal­inn gegna mik­il­vægu hlut­verki í friðarviðræðum, þar sem hann „end­ur­spegli stjórn­mála­hug­mynd­ir Kúrda“. 

Staða fang­els­is­mála

Den­is O’Hearn fjallaði sér­stak­lega um fang­els­is­mál og stöðu fanga í er­indi sínu. Fram kom að staðan í Tyrklandi hafi ekki verið verri síðan Recep Tayyip Er­dog­an, nú­ver­andi for­seti, komst til valda, eða í um 20 ár. Fjöldi fanga í Tyrklandi er sá næst sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá efna­hags- og fram­far­ar­stofn­un­inni, OECD.

Frá ár­inu 2003 hef­ur fjöldi fanga, á hverja hundrað þúsund íbúa, fimm­fald­ast, en fjöld­inn fór úr 75 þúsund í 374 þúsund á þessu 20 ára tíma­bili. Stór hluti eru póli­tísk­ir fang­ar en yf­ir­völd í Tyrklandi hafa ekki veitt upp­lýs­ing­ar um ná­kvæm­an fjölda þeirra. Ein­angr­un­ar- og dán­artíðni er sér­stak­lega há í tyrk­nesk­um fang­els­um. 

Borg­ar­ar eru meðal ann­ars fang­elsaðir fyr­ir að tjá skoðanir sín­ar með mót­mæl­um, beita sér fyr­ir aukn­um rétt­ind­um Kúrda og fyr­ir að sýna fram á vilja hefja að nýju friðarviðræður milli Kúrda og stjórn­valda Tyrkja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert