Einstaklega góður útskriftarárgangur í ár

Óskar Hörpuson fagnar því að hljóta verðlaun fyrir stuttmyndina sína …
Óskar Hörpuson fagnar því að hljóta verðlaun fyrir stuttmyndina sína Leið 7. Ljósmynd/Aðsend

Kvikmyndaskóli Íslands (KVÍ) útskrifaði 29 nemendur á laugardaginn. Um er að ræða þrjátíu ára afmælisár skólans. Börkur Gunnarsson, rektor skólans, telur árganginn einstaklega góðan. Hann segir að þær myndir sem útskriftarnemendur gerðu í ár hafi sýnt verulega flotta hæfileika.

„Þessar bestu eru virkilega vandaðar og flottar og geta farið víða um heim,“ segir Börkur í samtali við mbl.is. Hann segir KVÍ hafi ekki formlega hafa byrjað að útskrifa fyrr en árið 2004.

„Þá var þetta orðið svona alvöru nám. Þetta var svolítið bara námskeið fyrstu árin,“ segir Börkur en KVÍ hefur útskrifað yfir 600 nemendur síðan þá. Á liðinni önn hafi um 109 nemendur verið við nám í skólanum.

Kvikmynd um falda fordóma

Stuttmyndin Leið 7 eftir Óskar Hörpuson hlaut Bjarkann í ár en það kallast aðalverðlaun KVÍ. Myndin fjallar í stuttu máli um strætóferð Íslendings sem verður fyrir góðlátlegum fordómum og síðan andstyggilegum, en nær góðu talsambandi við litla stelpu og gefur áhorfendum von um bjarta framtíð.

Dómnefnd sagði að handrit, leikur, úrvinnsla og tæknivinna gengi allt upp í „þessari fallegu mynd um óvænta vináttu um borð í strætó“. Þó efnið sé ekki á stærðargráðu heimsendamynda sé ekki einn dauður punktur í myndinni.

Fleiri myndir sem hlutu verðlaun á þessu ári voru Skýjaborgin eftir Magdalenu Ólafsdóttur, Dansandi á rósum eftir Önnu Birnu Jakobsdóttur, Í dimmri fegurð eftir Arnór Rúnarsson og Fjölskyldan mín eftir Sylvíu Rún Hálfdánardóttur.

„Þetta er ótrúlegt hvað þau eru orðin fær,“ segir Börkur.

Mikil eftirspurn á erlendu brautinni

Börkur segir að eftirspurnin í skólann sé jöfn og stöðug. Hún hafi ekki verið að aukast mikið en ný erlend deild hafi þó hlotið mikla eftirspurn. Brautin var opnuð síðasta haust og Börkur segir að eftirspurn þar sé mjög góð.

„Þar eru gríðarlegir sóknarmöguleikar í og þar hefur verið mikil eftirspurn,“ segir Börkur. Á erlendu brautina taka þau inn nemendur sem koma hvaðanæva að. Sjö nemendur komist inn á hverri önn og, sem eru um 15% umsækjenda Hann segir megni umsækjenda koma frá löndum Evrópusambandsins.

„Þetta eru nemendur allstaðar af úr heiminum– Japan, Hong Kong, Indlandi og Mexíkó,“ segir hann. Um er að ræða tveggja ára nám sem jafngildir diplómanámi, rétt eins og aðrar brautir í skólanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka