92 milljarðar í almenningssamgöngur til 2038

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra kynnir samgönguáætlun á Hótel Nordica í …
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra kynnir samgönguáætlun á Hótel Nordica í gær. mbl.is/Hákon Pálsson

Í tillögu að samgönguáætlun fyrir tímabilið 2024-2038, sem Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra kynnti í gær, eru almenningssamgöngur nokkuð fyrirferðarmiklar. Gert er ráð fyrir 92 milljarða króna styrkjum til almenningssamgangna á tímabilinu en inni í þeirri tölu eru styrkir vegna flugs og ferjusiglinga auk almenningssamgangna á bæði höfuðborgarsvæði og landsamgangna á landsbyggðinni. Það gerir rúmlega 6 milljarða á ári.

Við það bætist 81 milljarður króna í útgjöld vegna borgarlínu en ein megináhersla tillögu um samgönguáætlun er að áfram verði unnið að uppbyggingu borgarlínu og annarra samgöngumannvirkja á grundvelli samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

Segir í greinargerð með tillögunni að það sé lykilþáttur í þróun svæðisins í átt að sjálfbærara borgarsamfélagi og að aukin hlutdeild almenningssamgangna í ferðamátavali á svæðinu muni greiða fyrir umferð og halda aftur af aukningu umferðartafa á svæðinu. Miðað er að því að fjöldi farþega með almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu vaxi úr rúmum 11 þúsund árið 2022 í tæp 16 þúsund árið 2024 og rúm 20 þúsund árið 2028. Miðast þær tölur við innstig í vagna.

Byrjað á Hamraborg-Hlemmi

Í útgjaldaáætlun vegna borgarlínu er gert ráð fyrir því að byrja á leiðinni Hamraborg-Hlemmur og að í hana fari 36 milljarðar króna á árunum 2024-2027; fimm milljarðar á fyrsta ári, níu á öðru ári, og 11 milljarðar króna á þriðja og fjórða ári, hvoru um sig.

Gert er ráð fyrir 13 milljörðum króna í leiðina Fjörð-Miklubraut á árunum 2026-2033, fjórum milljörðum á fyrstu þremur árunum en níu á næstu fimm árunum. Á árunum 2027-2028 er gert ráð fyrir átta milljörðum króna í leiðina Keldur og Blikastaði. Tveir milljarðar eru eyrnamerktir leiðinni á fyrsta ári og sex á öðru ári.

Þá gerir tillagan ráð fyrir fimm milljörðum króna í leiðina Hamraborg-Lindir, þremur milljörðum á fyrstu tveimur árunum en tveimur á næstu fimm árunum. Á árunum 2028-2033 er gert ráð fyrir 11,5 milljörðum í leiðina Mjódd-BSÍ, tveimur milljörðum á fyrsta ári en 9,5 milljörðum á næstu fimm árum. Þá er gert ráð fyrir 7,5 milljörðum til ársins 2033 í leiðina Ártún-Spöng en ekki er gert ráð fyrir útgjöldum í þá leið fyrr en eftir árið 2028.

Á þessari teikningu má sjá áformaða legu Borgarlínu í gegnum …
Á þessari teikningu má sjá áformaða legu Borgarlínu í gegnum Hlíðarenda. Teikning/Borgarlínan

92 milljarða króna styrkir til almenningssamgangna

Tillaga til samgönguáætlunar þeirrar sem kynnt var í gær gerir ráð fyrir rúmlega 92 milljarða króna styrkjum til almenningssamgangna á árunum 2024-2038. Miðað er að því að rúmlega fjórir og hálfur milljarður renni til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu fyrstu fimm árin eða rúmar 900 milljónir króna á ári og rúmir sjö milljarðar í landsamgöngur á landsbyggðinni á sama tíma eða um einn og hálfur milljarður á ári.

Tillagan miðar að vinnu við að aðgengi fyrir almenningsvagna verði sem best við flugstöðvar, sérstaklega við Keflavíkur-, Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöll og stuðlað verði að almenningssamgöngum með endurnýjanlegum orkugjöfum milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar í samvinnu við sveitarfélögin á svæðinu.

Teikning/Borgarlínan

Markmið um jákvæða byggðaþróun

Tillaga um samgönguáætlun miðar að því að unnið verði að því í samstarfi ríkis og sveitarfélaga að efla almenningssamgöngur á landsbyggðinni þar sem grundvöllur er til þess. Leitað verði leiða til þess að draga úr ferðatíma og tryggja öryggi. Heildstætt leiðakerfi almenningssamgangna milli byggða verði skilgreint með tilliti til samræmdra þjónustuviðmiða og samvirkni leiða og að mótuð og innleidd verði gagnvirk upplýsingaveita fyrir heildstætt almenningssamgöngukerfi.

Þá verði mótuð uppbyggingaráætlun um bætt aðgengi fatlaðs fólks að kerfi almenningssamgangna á landi og í lofti á milli byggða. Horft verði til niðurstöðu skýrslu ÖBÍ um ástand á biðstöðvum sem og á niðurstöðu skýrslu starfshóps um stöðu fatlaðs fólks í samgöngum. Í greinargerð með tillögunni segir að ferðalög fatlaðs fólks milli landshluta verði auðveldari með bættu aðgengi í leiðakerfi almenningssamgangna og með endurbótum á biðstöðvum almenningsvagna og flugstöðvum.

Raunhæfum valkostum til daglegra ferða fjölgar

Í greinargerðinni segir að í samræmi við stefnumótun í samgöngumálum verði þjónusta almenningssamgangna efld, svo sem með aukinni samþættingu leiðakerfa á landi, lofti og sjó og innleiðingu sameiginlegrar upplýsingagáttar.

Segir þá að raunhæfum valkostum til daglegra ferða ætti að fjölga með því að efla almenningssamgöngur og styrkja innviði fyrir gangandi fólk, hjólreiðar og smáfarartæki og að grænar og öflugar almenningssamgöngur milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar efli ferðaþjónustu og bæti þjónustu við almenning.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka