Héraðsdómur Reykjavíkur telur sannað að háttsemi hjúkrunarfræðingsins Steinu Árnadóttur við björgunartilraun sjúklings hafi valdið bana hans. Það hafi þó ekki verið ásetningur hennar og var hún því sýknuð af ákæru þess efnis.
Ákæruvaldið gaf út ákæru á hendur Steinu fyrir manndráp og brot í opinberu starfi. Var henni gefið að sök að hafa banað skjólstæðingi sínum, sjúklingi á geðdeild Landspítalans, með því að þvinga ofan í hann næringardrykk. Drykkurinn hafi farið í loftveg hans með þeim afleiðingum að hann kafnaði.
Í dóminum kemur fram að rannsókn á vettvangi hafi á sínum tíma ekki farið fram með það fyrir augum að skoða hvort andlátið hafi borið að með saknæmum hætti. Um atburðarásina í herbergi sjúklingsins séu til frásagnar Steina og nokkur vitni, annað starfsfólk á deildinni. Þau hafi lýst atvikum í samræmi við einstaklingsbundna skynjun sína, sem var að vísu ekki að öllu leyti samhljóma. Er það mat dómsins að þó vitnunum hafi ekki borið saman um einstök atriði málsatvika þá dragi það ekki úr sönnunargildi framburðar þeirra.
Telst sannað að ástand sjúklingsins hafi verið slíkt að það kallaði á tafarlaus en jafnframt fumlaus viðbrögð. Steina hafi komið til aðstoðar í því skyni að bregðast við ástandi sem rökrétt var að setja í samhengi við að skjólstæðingur hennar hefði neytt fastrar fæðu þvert á fyrirmæli. Í dóminum er nefnt að grænmetisbitar hafi verið á matarbakka sjúklingsins og fundist á gólfinu. Beri að virða viðbrögð hennar á staðnum í því ljósi.
Viðbrögð hennar við ástandinu voru að reisa sjúklinginn við, fyrirskipa að honum yrði haldið í rúminu í sitjandi stöðu og höndum hans haldið. Þá hafi hún tekið ákvörðun um að gefa honum næringardrykk að drekka á meðan því stóð og slegið í bak hans með þeim afleiðingum að upp úr honum kom biti og/eða vökvi.
Í skýrslutöku hjá lögreglu lýsir Steina því að hún hafi talið mögulegt að losa um það sem stæði í skjólstæðingi sínum með vökva. Hún hafi gripið til þessa ráðs vegna þess að hún hefði góða reynslu af aðferðinni við ákveðnar aðstæður. Báru vitni til um að hún hefði ekki beitt þeirri varfærni sem henni mátti vera ljóst að þörf var á auk þess sem hún hefði átt að gefa sjúklingnum vatn að drekka, ekki næringardrykk. Þá hafi hún hunsað viðvörunarorð og viðbrögð samstarfskvenna sinna svo og sjálfs sjúklingsins.
Dómurinn telur sannað að sú háttsemi Steinu að hella næringardrykk upp í munn skjólstæðings síns með þeim hætti sem raun bar vitni hafi haft það í för með sér að drykkurinn hafnaði í loftvegi hans. Þá sé sannað að dánarorsök hans hafi verið köfnun innöndunar á ljósum vökva.
Í dóminum er greint frá því að héraðsdómur telji ósannað að Steina hafi haft ásetning til að svipta sjúklinginn lífi þegar verknaður átti sér stað. Er þá meðal annars litið til þess að framburður hennar hefur verið stöðugur í gegnum málaferlið og viðbrögð hennar fyrir og eftir atvikið renna stoðum undir hann. Ætlun hennar hafi ekki verið sú að svipta sjúklinginn lífi heldur að bregðast tafarlaust við ástandi sem hún taldi sig hafa stjórn á.
Því beri að sýkna hana af broti gegn 211. gr. almennra hegningarlaga er varða manndráp og líkamsmeiðingar.
211. gr. Manndráp og líkamsmeiðingar
Hver, sem sviptir annan mann lífi, skal sæta fangelsi, ekki skemur en 5 ár, eða ævilangt.
Af þeirri niðurstöðu dómsins leiðir að hún verði einnig sýknuð af broti á almannafriði og allsherjarreglu 138. gr. almennra hegningarlaga þar sem ákvæðinu verði ekki beitt sjálfstætt.
138. gr. Brot á almannafriði og allsherjarreglu
Nú hefur opinber starfsmaður gerst sekur um refsilagabrot með verknaði, sem telja verður misnotkun á stöðu hans, og við því broti er ekki lögð sérstök refsing sem broti í embætti eða sýslan, þá skal hann sæta þeirri refsingu, sem við því broti liggur, en þó svo aukinni, að bætt sé við hana allt að helmingi hennar.
Einnig kemur fram að ekki séu fyrir hendi refsiskilyrði fyrir brot á lögum um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012. Aðeins skuli refsa fyrir gáleysisbrot sé sérstök heimild til þess í lögum.
Í samræmi við framangreinda niðurstöðu er einkaréttarkröfu dánarbús móður hinnar látnu vísað frá dómi.
Allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun verjanda Steinu, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, skal greiddur úr ríkissjóði. Nemur kostnaðurinn 3.917.160 krónum.