Gengið á ráðherra um fyrirhugaða íbúðabyggð

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra í pontu á fundi Flugmálafélags Íslands
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra í pontu á fundi Flugmálafélags Íslands mbl.is/Eyþór Árnason

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra mætti á fund Flugmálafélags Íslands um stöðu Reykjavíkurflugvallar í dag. Tilefnið var öðru frekar fyrirhuguð íbúðabyggð í Skerjafirði og áhrif hennar á rekstur flugvallarins.

Flestir frummælendur voru mjög gagnrýnir á fyrirhugaða byggð. Sigrún Björk Jak­obs­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Isa­via inn­an­lands, sagði það sérkennilegt að Fluggarðar eigi að víkja árið 2024 fyrir byggðinni, því þar sé grasrót flugsins á Íslandi.

Tíðar kvartanir frá Hlíðarenda

Hún sagði nábýli íbúðabyggðar og flugvallar ganga illa. Hún mælir það helst á því að Isavia berist kvartanir úr Hlíðarendahverfi. Komi þær kvartanir nokkuð á óvart, þar sem fólk sem þar býr, ætti að átta sig að nábýlinu við flugvöll fylgdi hávaði.

Orri Ei­ríks­son, flugstjóri Icelanda­ir, kom að gerð skýrslu innviðaráðuneytis um áhrif nýrrar byggðar og framkvæmda á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar. Skoðaði nefndin það helst að nýja byggðin hafi áhrif á vindafar á flugbrautum.

Snjómokstur hefjist fyrr á daginn 

Eins mun skuggavarp af hverfinu hafa áhrif á flugbrautirnar. Hrím og snjór safnist þá frekar fyrir og þarf því að ryðja þær og hreinsa fyrr en ella, með tilheyrandi ónæði fyrir nágrannana. Telur Orri skástu lausnina felast í því að hafa byggðina lágreista, þannig að áhrif hennar á flugbrautir séu sem minnstar.

Sigurður Ingi sagði sig standa við gerða samninga, sem margir hverjir hafi verið gerðir af forverum hans í embætti úr öðrum flokkum. Verið sé að rannsaka fýsileika flugvallar í Hvassahrauni en óraunsætt sé að tala um að völlur þar verði komið í gagnið fyrr en eftir 20-25 ár ef af verður.

Flugvöllurinn ekki á förum í bráð

Hann horfir því til þess að Reykjavíkurflugvöllur sé í notkun næstu áratugina og hið opinbera hafi eyrnamerkt umtalsvert fé til viðhalds vallarins, sem felst meðal annars í því að reist verður ný flugstöð í stað þeirrar gömlu.

Fund­ar­stjóri var Matth­ías Svein­björns­son, for­seti Flug­mála­fé­lags Íslands, sem sagði að orkuskipti í flugrekstri væru hafin. Kom það fram í máli hans að ljóst sé að miklar breytingar verði á næstu árum en að innviðina skorti til þess á vellinum. 

Sigurður Ingi sagði að viðhaldsfé til vallarins geri ekki ráð fyrir orkuskiptunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert