130 milljónir í öruggari samskipti sendiráða

Utanríkisráðuneytið við Rauðarárstíg. Setja á 130 milljónir á næsta ári …
Utanríkisráðuneytið við Rauðarárstíg. Setja á 130 milljónir á næsta ári í að gera samskipti í sendiráðum erlendis öruggari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Útgjöld til ut­an­rík­is­mála drag­ast sam­an um rúm­lega 1,9 millj­arða að nafn­v­irði á næsta ári sam­kvæmt nýju fjár­laga­frum­varpi, en það sam­svar­ar lækk­un upp á 11,4% á föstu verðlagi. Þar með er þó ekki öll sag­an sögð, því stór­an hluta af þess­ari lækk­un má rekja til þess að ekki er gert ráð fyr­ir fram­lagi í upp­bygg­ing­ar­sjóð EES.

Enn standa yfir viðræður um fram­lög Íslands í sjóðinn sam­kvæmt nýju sjóðstíma­bili og gæti þessi kostnaður því kom­ist inn í fjár­lög­in síðar.

16 millj­arðar í ut­an­rík­is­mál

Sam­tals eru út­gjöld ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins sam­kvæmt fjár­lög­um 15,73 millj­arðar á næsta ári, en til sam­an­b­urðar er það svipuð upp­hæð á nafn­v­irði og fór í mála­flokk­inn árið 2022 og um eins millj­arða lækk­un frá því á fjár­lög­um í ár.

Ut­an­rík­is­mál­um er skipt í fjóra und­ir­mála­flokka í fjár­lög­un­um, en það eru; Ut­an­rík­isþjón­usta og stjórn­sýsla ut­an­rík­is­mála, ut­an­rík­is­viðskipti, sam­starf um ör­ygg­is- og varn­ar­mál og samn­ings­bund­in fram­lög vegna fjölþjóðasam­starfs.

Al­menna ut­an­rík­isþjón­ust­an lækk­ar en ut­an­rík­is­viðskipti hækka

Fram­lög til ut­an­rík­isþjón­ustu og stjórn­sýslu ut­an­rík­is­mála lækka ör­lítið að nafn­verði milli ára, en lækk­un­in nem­ur 534 millj­ón­um á föstu verðlagi milli ára. Er heild­ar­upp­hæð sam­kvæmt fjár­lög­um nú 7,1 millj­arður.

Fram­lög til ut­an­rík­is­viðskipta hækka hins veg­ar um 200 millj­ón­ir eða 20,2% á nafn­v­irði. Fram kem­ur í frum­varp­inu að þetta sé í sam­ræmi við áætlaða hækk­un tekna rík­is­ins af markaðsgjaldi í fjár­lög­um, en sam­kvæmt lög­um um Íslands­stofu skal fjár­veit­ing til stofn­un­ar­inn­ar aldrei vera lægri en sem nem­ur markaðsgjaldi.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra.
Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, ut­an­rík­is­ráðherra. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

400 millj­ón­ir auka­lega vegna fjölþátta­ógna

Fram­lag í flokk­inn sam­starf um ör­ygg­is og varn­ar­mál hækk­ar um 400 millj­ón­ir, eða 8,4% að nafn­v­irði. Nem­ur það 58 millj­ón­um á föstu verðlagi, en heild­ar­út­gjöld­in í þenn­an und­ir­flokk nema sam­tals 4.836 millj­ón­um.

Und­ir þetta heyra meðal ann­ars fram­lög til Nato, í nor­rænt varn­ar­sam­starf, sam­vinnu á vett­vangi NB8-ríkj­anna, sam­eig­in­legu viðbragðssveit­ar­inn­ar JEF og í tví­hliða varn­ar­samn­ings Íslands og Banda­ríkj­anna. Þá heyra líka und­ir þenn­an flokk fjölþátta­ógn­ir, en þar er horft til netör­yggis­at­vika sem eiga upp­runa sinn frá er­lend­um ríkj­um.

Í þess­um und­ir­flokki er meðal ann­ars að finna 750 millj­óna stuðning við Úkraínu, líkt og á nú­ver­andi ári. Hins veg­ar fell­ur niður 130 millj­óna kostnaður sem kom til á þessu ári til að flýta fram­kvæmd­um við gistiskála á varn­ar­svæðinu. Þá hækka út­gjöld um 400 millj­ón­ir vegna áforma um hærri fram­lög í tengsl­um við þátt­töku Íslands í alþjóðleg­um sam­vinnu­verk­efn­um á sviði fjölþátta­ógna.

Þá er sér­stak­lega tekið fram að 130 millj­ón­ir muni fara í að hefja upp­setn­ingu á ör­ugg­um sam­skipta­rým­um og búnaði því tengdu í sendiskrif­stof­um Íslands, en þar er átt við sendi­ráð Íslands er­lend­is.

Ekk­ert áætlað því samn­ing­ar standa enn yfir

Að lok­um lækk­ar fram­lag í fjórða og síðasta flokkn­um, samn­ings­bund­in fram­lög vegna fjölþjóðasam­starfs, um tæp­lega 1,6 millj­arða. Skýrist það aðallega af því að fram­lag í upp­bygg­ing­ar­sjóð EES er fellt niður, en það nam 1,7 millj­arði. Seg­ir í frum­varp­inu að ekki hafi legið fyr­ir upp­lýs­ing­ar um áætluð fram­lög þegar gengið var frá frum­varp­inu.

mbl.is spurðist fyr­ir um það hvort gert væri ráð fyr­ir fram­lög­um í þenn­an mála­flokk áfram eða hvort lík­legt væri að hann myndi falla niður að fullu og þátt­töku Íslands þar af leiðandi væri lokið í Upp­bygg­ing­ar­sjóðnum. Af svar­inu að dæma standa viðræður um næsta sjóðstíma­bil yfir og mætti því ætla að áfram verði ein­hver fram­lög í þenn­an mála­flokk, hvort sem þau verði svipuð milli ára, auk­in eða minnkuð. Þá fékkst jafn­framt staðfest að ekki sé horft til þess að hætta þátt­töku í sjóðinum.

„Lækk­un fjár­heim­ilda mála­flokks­ins 04.50 Samn­ings­bund­in fram­lög vegna fjölþjóðasam­starfs um 1.683,9 m.kr milli ára skýrist af óvissu um áætluð fram­lög Íslands til Upp­bygg­ing­ar­sjóðs EES, þar til ný áætl­un sjóðsins ligg­ur fyr­ir. Viðræður EFTA-ríkj­anna í EES við ESB um nýtt sjóðstíma­bil Upp­bygg­ing­ar­sjóðs EES standa yfir. Eðli máls­ins sam­kvæmt get­ur ut­an­rík­is­ráðuneytið ekki veitt frek­ari upp­lýs­ing­ar um upp­hæð fram­laga Íslands til Upp­bygg­ing­ar­sjóðs EES, fyrr en sam­komu­lag um nýtt sjóðstíma­bil ligg­ur fyr­ir,“ seg­ir í svari ráðuneyt­is­ins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert