Ríkisstarfsmönnum gert að ferðast minna

Bjarni segir aukna aðhaldskröfu á ríkisstarfsmenn þegar kemur að ferðakostnaði.
Bjarni segir aukna aðhaldskröfu á ríkisstarfsmenn þegar kemur að ferðakostnaði.

Skorið verður niður um ríflega hálfan milljarð í ferðakostnað opinberra starfsmanna ef tekið er mið af fjárlagafrumvarpi næsta árs. Þetta kom fram í kynningu Bjarna Benediktssonar, efnahags- og fjármálaráðherra, á fjárlagafrumvarpinu í gær. 

Ferðakostnaður ríkisstarfsmanna var 3,66 milljarðar kr. í fyrra og stendur í 2,8 milljörðum kr. það sem af er ári og ætti því að enda á svipuðum slóðum og í fyrra að óbreyttu. 

Vilji til aðhalds 

Í samtali við mbl.is segir Bjarni að mörgum sé orðið ljóst eftir heimsfaraldurinn að fjarfundir geti tekið við af ferðalögum til að leysa verkefni. Spurður hvort að að þarna sé viðurkenning á því að ríkisstarfsmenn séu of gjarnir á að fara í ferðalög þegar fjarfundir eigi að duga þá segir Bjarni að vilji sé til aukins aðhalds. 

„Við viljum einfaldlega að þarna sé aðhaldið aukið og þegar hægt er að leysa málin með fjarfundi að þá verði það gert. Það breytir því ekki að við verðum áfram þátttakendur í alþjóða samvinnu og munum rækja öll okkar helstu verkefni. En viljum að þarna verði aðhald,“ segir Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert