Ellefti hver lántaki greiðir umfram viðmið

Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika og Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika …
Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika og Haukur C. Benediktsson, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika á fundinum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Haustið 2021 setti Seðlabankinn nýjar reglur um hámark greiðslubyrðar í hlutfalli við tekjur lántaka. Var það 35% af ráðstöfunartekjum, en fyrir fyrstu kaupendur 40%. Hlutfall þeirra sem eru yfir þessum mörkum hefur hækkað nokkuð að undanförnu og telur Seðlabankinn nú að 9% lántaka greiði meira en 40% af ráðstöfunartekjum sínum í íbúðalán.

Þetta var meðal þess sem kom fram í máli Hauks C. Benediktssonar, framkvæmdastjóra fjármálastöðugleika hjá Seðlabanka Íslands, á kynningu bankans í morgun.

Haukur segir að þegar horft sé til íbúðalána sem tekin hafi verið frá ársbyrjun 2020 hafi 4,5% þeirra verið með greiðslubyrðarhlutfall umfram 40% þegar lánið var tekið. Nýjasta mat Seðlabankans bendi hins vegar til þess að þetta hlutfall sé nú komið upp í 9%.

Greiðslubyrði aukist um meira en 120 þúsund hjá 9% lántaka

Sýndi hann jafnframt súlurit um hvernig mánaðarleg greiðslubyrði nýrra lántaka fasteignalána til neytenda hefði breyst í krónum talið.

Graf/Seðlabanki Íslands

Hjá um 22% lántakenda hefur afborgun íbúðalána lækkað frá byrjun ársins fram í júlí. Hjá um 53% lántakenda var hækkunin í krónum talið á bilinu 0 til 50 þúsund, en hjá 25% lántakenda var hækkunin meiri en 50 þúsund á mánuði. Þar af eru um 9% lántaka þar sem greiðslubyrðin hefur hækkað um meira en 120 þúsund krónur á mánuði.

Botninum náð varðandi vanskil

Vanskil eru þó enn mjög lág og sagði Haukur að þótt þyngri greiðslubyrði hafi ekki enn birst í auknum vanskilum sé viðbúið að slíkt gerist fyrr eða síðar. Ítrekaði bæði hann og Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri mikilvægi þess að bæði lántakendur og lánastofnanir skoðuðu möguleika á ýmsum úrræðum þegar greiðslubyrði heimila væri orðin íþyngjandi, hvort sem það væri með breyttu lánafyrirkomulagi, lengingu lána eða öðrum hætti.

Haukur benti á að vanskil einstaklinga í bankakerfinu væru nú ekki nema 0,8% og þyrftu nánast að tvöfaldast ti lað vera á sama stað og fyrir faraldurinn. Þó sagði hann að vanskilahlutföll væru hætt að lækka, en lægst fóru þau í lok síðasta árs þegar þau voru 0,7%. Jafnvel mætti segja að þau væru byrjuð að hækka, þótt það væri hægt. „Líkur eru því á að botninum sé náð hvað vanskilahlutföll varðar. Þetta á bæði við um heimili og fyrirtæki,“ sagði Haukur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert