Ný hjúkrunarrými hvergi að finna í fjármálaáætlun

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Kristrún Frostadóttir, þingkona og formaður Samfylkingarinnar, segir að fjárframlag til áætlaðrar opnunar nýrra hjúkrunarrýma sé hvergi að finna í fjármálaáætlun. Segir hún einnig að þörf sé á aukinni áherslu á heimaþjónustu við aldraða til þess að minnka álag í heilbrigðiskerfinu.

Kristrún flutti framsöguræðu í umræðu á Alþingi um hjúkrunarrými og heimahjúkrun. Sagði hún að áætlanir stjórnvalda gerðu ráð fyrir uppbyggingu 394 hjúkrunarrýma á næstu fimm árum, en þrátt fyrir það mætti búast við því að það myndi vanta um 200 hjúkrunarrými,ef litið væri til lýðfræðilegrar þróunar næstu ára.

Þar að auki segir hún að kostnaðurinn fyrir þessum nýju rýmum, sem er um 6,8 milljarðar króna, finnist ekki í fjármálaáætlun stjórnvalda.

„Samkvæmt svari heilbrigðisráðherra hæstvirts er rekstrarkostaður 394 nýrra rýma 6,8 milljarðar króna á ári. Í fjármálaáætlun til 2028 virðist ekki vera gert ráð fyrir rekstrarkostnaði þessara nýju rýma. Hvergi gat ég fundið 6,8 milljarða í viðbót. Hvernig stendur á þessu?“ spurði Kristrún

Framkævmdir standa yfir á nýjum landpítala.
Framkævmdir standa yfir á nýjum landpítala. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aukin áhersla á aldraða minnki álag á hjúkrunarrýmum

Kristrún segir að samkvæmt heilbrigðisráðherra kosti lega á sjúkrahúsi hátt í 70 milljónir króna á ári fyrir einstakling. Þá sé kostnaður á hjúkrunarrými 17 milljónir króna fyrir hvern einstakling, en aðeins 3 milljónir fyrir heimaþjónustu. Segir hún að með aukningu á heimahjúkrun væri hægt að fækka í fjölda þeirra eldri borgarar sem þurfa innlögn á hjúkrunarrými.

„Rannsóknir sýna að stærstur hluti kostnaðar við heilbrigðisþjónustu er við þau 10-15% eldra fólks sem veikust eru á hverjum tíma,“ sagði Kristrún. „Þetta er viðkvæmasti hópurinn sem þarf að setja í forgang. Bæði til að koma veg fyrir vanlíðan og heilsubresti fyrir viðkomandi einstaklinga en líka til að tryggja óþarfa kostnað í heilbrigðiskerfinu.“

Því sagði Kristrún að það veki furðu að fjármagn til uppbyggingar heimahjúkrunar hafi staðið óhreyft undanfarin 14 ár sem hlutfall af landsframleiðslu, „þrátt fyrir öldrun þjóðar og að þessi liður ætti að vera grunnstoð í umönnun eldra fólks og draga úr þörfum á hjúkrunarrýmum“.

„Hvers vegna hefur fjármagnið sem ekki hefur leitað út vegna uppbyggingar rýma ekki verið fundinn farvegur í heimahjúkrun? Hvernig stendur á því að ekki er gert ráð fyrir aukningu til heimahjúkrunar, samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar?“ spurði hún að lokum, auk þess sem hún varpaði fram spurningu um hver staðan væri á vinnu við opnun hjúkrunarrýma fyrir þá sem glíma við fíknivanda eða fjölþættan vanda, „sem ráðherra boðaði opnað yrði árið 2021“.

Margt sem hefur tafist

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra steig næstur upp í pontu. Þakkaði hann Kristrúnu fyrir að koma inn á þetta mál „á þessum breiða grunni og í fjölmjörgum áherslum“. Þá sagðist hann vona að þingmaður fyrirgæfi honum það að geta ekki farið yfir það allt saman á stutta ræðutímanum.

„Þetta kallar á fjölmörg úrræði og [verkefnið] Gott að eldast fær raunverula þetta vægi í stjórnarsáttmála því ríkisstjórn horfir svo á málið. Þetta kallar á aukna heimahjúkrun, aukna endurhæfingu, [og] aukna dagþjálfun,“ segir Willum en Gott að eldast er ný aðgerðarátælun við þjónustu eldra fólks.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra kynnti Gott að eldast fyrr á …
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra kynnti Gott að eldast fyrr á árinu. mbl.is/Arnþór

Kveðst hann sammála Kristrúnu um að það sé dýrara að gera ekkert vegna hækkandi lífsaldurs heldur en að vinna með fólki og styðja við það heima.

Þá segir Willum að stjórnvöld hafi þegar auglýst eftir húsnæði „sem hefur skilað tveimur spennandi verkefnum sem geta skilað þessum 200 rýmum, sem við getum horft fram á á næstu fimm árum, eins og háttvirtur þingmaður dregur fram, ef við gerum ekki neitt og leggjum ekki aukna áherslu á endurhæfingu, sem við höfum verið að gera.“

Nefnir Willum einnig að miklar tafir hafi því miður orðið á mörgum framkvæmdum. Nefnir hann þar á meðal hjúkrunarheimilið við Mosaveg í Reykjavík. „Við erum eiginlega á núllpunkti í því verkefni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka