Endurhugsa þarf flugvallarsamgöngur

Almenningssamgöngur frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar eru af skornum skammti.
Almenningssamgöngur frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar eru af skornum skammti.

Íbúum á Suðurnesjum hefur frá árinu 2012 til 2023 fjölgað um að meðaltali 900 manns á ári, eða úr 21 þúsund manns í 31 þúsund. Áætlanir gera ráð fyrir því að um 50 þúsund manns muni búa eftir um 20 ár, sem jafnast á við íbúafjölda Færeyja.

Á sama tíma, eða á árunum 2012 til 2022, hefur fjöldi flugfarþega um Keflavíkurflugvöll meira en tvöfaldast. Á síðasta ári fóru sex milljónir manna um flugvöllinn og mun þeim fjölga enn frekar á næstu árum. Þetta fólk mun skila sér á Reykjanesbrautina og skapa enn meira álag á innviðina. Eins og staðan er núna leigja um 55% þeirra sem koma til Íslands sér bílaleigubíl vegna skorts á betri valkostum.

Þetta kom fram á málþingi í Salnum í Kópavogi í dag um hágæða grænar samgöngur á milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins, þar sem lestarsamgöngur voru meðal annars ræddar.

Gyða Mjöll Ingólfsdóttir.
Gyða Mjöll Ingólfsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Aukinn farþega- og fólksfjöldi sýnir mikilvægi 

Gyða Mjöll Ingólfsdóttir, verkefnastjóri samgönguáætlunar hjá innviðaráðuneytinu, kynnti niðurstöður nýlegrar ferðavenjukönnunar um að allir íbúar Suðurnesja fara að meðaltali 95 ferðir á mann á ári til höfuðborgarsvæðisins.

Hún sagði samspil aukins fjölda íbúa á Suðurnesjum og fleiri flugfarþega á næstu árum undirstrika mikilvægi almenningssamgangna á milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins. Stefna þyrfti á öflugar og kolefnislausar almenningssamgöngur á þessari leið.

Vistvænir orkugjafar 

Samúel Torfi Pétursson, þróunarstjóri hjá Kadeco (þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar), sagði félagið miða við að komið yrði á beinni og þægilegri tengingu á þessari leið sem þyrfti að „virka meira í líkingu við lest”.

Fundargestir í Salnum.
Fundargestir í Salnum. mbl.is/Árni Sæberg

Á höfuðborgarsvæðinu þyrfti að meta hvort ekið yrði eftir fyrirhuguðu sérrými borgarlínunnar í Hafnarfirði eða að nýrri samgöngumiðstöð sem er fyrirhuguð í Vogabyggð. Hægt væri að nota vagna knúna með vistvænum orkugjöfum, t.d. vetni, metani eða rafmagni. Vagnarnir gætu orðið hálf-sjálfakandi eða al-sjálfakandi.

Ef gert verður ráð fyrir 80 km hraða vagnanna verður beltaskylda um borð og rými fyrir farangursrekka, að sögn Samúels Torfa. Að lágmarki yrði ekið á 30 mínútna fresti á milli staða, byggt á aðstæðum eins og þær eru í dag. Áætlaður ferðatími væri 46 mínútur frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar að BSÍ, en annars 51 mínúta ef farið væri í gegnum Vogabyggð.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Salnum í Kópavogi í dag.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Salnum í Kópavogi í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Þriðji hver bíll bílaleigubíll

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði umferðarálag hafa aukist á öllum stofnbrautum og benti á að þriðji hver bíll sem keyrði framhjá álverinu í Straumsvík væri bílaleigubíll.

Í borgum sem ætli að keppa á ráðstefnu- og hvatamarkaði um betur borgandi ferðamenn væru fluglestir orðnar staðalbúnaður, að minnsta kosti í nágrannaborgunum. Dagur sagði það jafnframt líklega einsdæmi í heiminum hversu margir kæmu á eigin bílum til að fara í flug.

Hann sagði Vegagerðina hafa spáð því að umferðin um Reykjanesbraut eigi eftir að tvöfaldast og að afleiðingarnar yrðu auknar umferðartafir, meiri útblástur gróðurhúsalofttegunda, aukið svifryk og aukinn bílastæðavandi.

Dagur sagði hágæða samgöngur á milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins vera gríðarlegt samkeppnishæfni- og lífsgæðamál og benti á að verkefnið gæti staðið sjálft undir sér ef einkaaðilar myndu fjármagna það og draga það áfram að loknum undirbúningi ríkisins. Hann kvaðst velta því fyrir hvort hugmyndin um Sundabrautarleiðina með fjármögnun einkaaðila gæti orðið gott módel fyrir lest á milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins.

Strætósamgöngur í ólagi 

Á fundinum var einnig rætt um leið 55 með strætó til og frá Keflavíkurflugvelli. Lilja G. Karlsdóttir samgöngusérfræðingur sagði að á milli klukkan 6 og 9 í morgun hefðu tveir vagnar á leið 55 komið til Keflavíkurflugvallar og þrír hefðu farið þaðan. Á sama tíma hefðu 34 flugvélar farið í loftið og 18 lent með alls um 7.800 manns um borð.

Hún sagði rútur einnig stoppa fyrir utan flugstöðina og stigsmunur væri á því hvert farþegum væri beint. Litlar sem engar upplýsingar væru til staðar um hvar leið 55 væri, en hún stoppar fjær en rúturnar. Gera þyrfti betur í þeim efnum.

Þarf að bjóða upp á meiri gæði

Í pallborðsumræðum sagði Dagur tímabært að grípa til aðgerða í þessum samgöngumálum. „Við þurfum að koma okkur að verki,” sagði hann.

Samúel Torfi tók í sama streng og sagði tölurnar sýna að brjótast þyrfti út úr vananum. „Það er líka mikilvægt að bjóða upp á meiri gæði þannig að við eflumst sem borgarsvæði og land.”

Árni Freyr Stefánsson hjá innviðaráðuneytinu benti á að starfshópur væri í gangi á vegum ráðuneytisins við að greina samgöngurnar á milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins í því skyni að efla þær. Hann á að skila af sér skýrslu fyrir áramót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka