Segir það heiður að sitja áfram í ríkisstjórn

Bjarni Benediktsson, fráfarandi fjármála- og efnahagsráðherra, tekur við embætti utanríkisráðherra.
Bjarni Benediktsson, fráfarandi fjármála- og efnahagsráðherra, tekur við embætti utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ég leita fyrst og fremst að stuðningi minna flokksmanna. Það skiptir mig máli að hafa stuðning í Sjálfstæðisflokknum, það er það sem ég byggi mína veru í stjórnmálum á, en ég er voða lítið að leita að stuðningi frá Samfylkingunni til dæmis.

Þetta segir Bjarni Benediktsson, fráfarandi fjármála- og efnahagsráðherra, um þá ákvörðun sína að skipta um ráðherrastól við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, fráfarandi utanríkisráðherra.

Eins og greint hefur verið frá munu Bjarni og Þórdís skipta um ráðherrastól eftir að Bjarni sagði af sér embætti  fjármálaráðherra á þriðjudaginn, í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis um söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Bjarni segir það heiður að sitja áfram í ríkisstjórn.

Kveðst hafa skoðað alla möguleika

Stólaskiptin voru tilkynnt á fundi formanna ríkistjórnarflokkanna í dag klukkan 11 en Bjarni sagði á fundinum að hann hefði gengið út af blaðamannafundinum á þriðjudaginn, þar sem hann tilkynnti ákvörðun sína, með opnum hug.

Spurður hvort hann hafi íhugað að stíga til hliðar sem ráðherra alfarið segist Bjarni hafa skoðað alla möguleika.

„Ég hef skoðað allar sviðsmyndir í þessu. Þetta er bara niðurstaðan og ég ætla ekki að vera að velta mér upp úr því hvað kom til greina og hvað ekki. Ég hef velt þessu fyrir mér á alla kanta og þetta er niðurstaðan.“

Bjarni Benediktsson, verðandi utanríkisráðherra, ræðir við blaðamann mbl.is að loknum …
Bjarni Benediktsson, verðandi utanríkisráðherra, ræðir við blaðamann mbl.is að loknum blaðamannafundinum í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ákvörðunin hlúi að pólitískum stöðugleika

Hann ítrekar að mikilvægt hafi verið að láta af störfum í fjármála- og efnahagsráðuneytinu svo friður myndi skapast um störf ráðuneytisins. Hann tekur fram að nauðsynlegt sé að verkefni ráðuneytisins fái að vera í skjóli niðurstöðu umboðsmanns en bætir við að niðurstaðan sé alls ekki hafin yfir gagnrýni.

Spurður hvernig hann komst að þeirri niðurstöðu að skipta um stól við Þórdísi segir Bjarni:

„Þetta hefur verið mjög viðburðarík vika hjá mér. Ég stóð frammi fyrir stöðu sem ég átti ekki von á. Ég átti eftir að taka ákvörðun um hvaða afleiðingar þetta hefði og ég hef sest niður með þingflokknum og það hefur hjálpað mér að taka ákvörðun um framhaldið. Ég vil áfram axla ábyrgð á þessu stjórnarsamstarfi og þarf þá að beita mér og sitja við ríkisstjórnarborðið.“

Hann segir ákvörðun sína búa til grundvöll til að hlúa að pólitískum stöðugleika sem geri ríkisstjórninni kleift að klára kjörtímabilið í sameiningu og takast á við efnahagslegar áskoranir.

Mikilvægast hafi verið að taka ákvörðun sem stuðli að því að ríkisstjórninni sé kleift að klára kjörtímabilið í sameiningu. Spurður hvort að það gæti þýtt að þetta yrði síðasta ríkisstjórnin sem Bjarni taki þátt í segir hann:

„Það er ekki tímabært að meta það. Ég hef haft þá reglu að á meðan ég er með mikla ábyrgð og þarf að mæta í vinnuna á morgun, þá er best að vera ekkert að hugsa um slíka hluti. Það kemur að því að ég þarf að taka slíkar ákvarðanir en það er ekki komið að því núna.“

Formenn ríkisstjórnarflokkanna ganga út af blaðamannafundinum.
Formenn ríkisstjórnarflokkanna ganga út af blaðamannafundinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Líður vel með að sjá Þórdísi stíga inn í embættið

Spurður hvort einhver önnur útfærsla á ráðherraskiptum hafi komið til greina segir Bjarni ýmislegt hafa komið til skoðunar.

„Þetta var niðurstaðan eftir nokkra umhugsun. Ég veit að það gildir það sama um mig og Þórdísi, að hún hefði gjarnan viljað klára kjörtímabilið í þeim stól sem hún var. Við tökum á þessari stöðu og ég tel að þegar fram í sækir muni það reynast vel. Mér líður mjög vel með að sjá hana stíga þarna inn.“

Eins og greint var frá í gær svöruðu 71 prósent þátttakenda í skoðanakönnun Maskínu því að Bjarni ætti að hætta sem ráðherra.

Spurður hvort hann sé vongóður um að þessi sætaskipti skapi sátt meðal almennings um söluna á Íslandsbanka segir Bjarni erfitt að meta það og ítrekar að hann hafi tekið ákvörðun út frá því sem myndi skapa sátt í ríkisstjórninni og Sjálfstæðisflokknum.

Heiður að sitja áfram í ríkisstjórn

Spurður hvernig það blasi við honum að verða utanríkisráðherra segir hann það leggjast mjög vel í sig. Hann tekur fram að það sé heiður að sitja áfram í ríkisstjórn og ekki sjálfsagt að hafa traust til að sinna komandi verkefnum. 

Aðspurður segir hann of snemmt að segja til um hvort að einhverjar breytingar verði á áherslum eða verkefnum utanríkisráðuneytisins með hann í fararbroddi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka