Segja stjórnina standa mjög styrkum fótum

Formenn stjórnarflokkanna á blaðamannafundi í morgun.
Formenn stjórnarflokkanna á blaðamannafundi í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við teljum að ríkisstjórnin standi mjög styrkum fótum. Það hafa verið snúnir tímar í lífi þessarar ríkisstjórnar,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á blaðamannafundi sem lauk nú fyrri skömmu.

Á fundinum var það formlega tilkynnt að Bjarni Benediksson muni taka við embætti utanríkisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir verði fjármála- og efnahagsráðherra í hans stað.

Katrín fór yfir efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar og sagði að staða efnahagsmála væri orðin snúin.

Nefndi hún ákvörðun um að beita aðhaldi í ríkisrekstri og draga úr útgjöldum til að tryggja að stutt sé við peningastefnu Seðlabankans. Hún sagðist telja að ákvörðun Seðlabankans um að hækka vexti ekki frekar sýna að þær aðgerðir væru að bera árangur.

Engin ástæða til annars en að klára kjörtímabilið

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sagði ríkisstjórnina vera búna með um það bil 60 prósent af verkefnum stjórnarsáttmálans og engin ástæða væri til annars en að klára kjörtímabilið.

„Við höfum starfað saman í sex ár og náð miklum árangri,“ sagði formaður Framsóknarflokksins.

„Á þessu miðja kjörtímabili eru áskoranirnar í íslensku samfélagi þess eðlis að við, með okkar stjórnarsáttmála, með okkar reynslu, með okkar bakgrunn í samstarfi, erum á þeirri skoðun að það sé einfaldlega best að við klárum þetta verkefni. Þingflokkarnir okkar eru sammála um það.“

Hann sagði að áskoranirnar væru verðbólga, efnahagsleg óvissa og kjaraviðræður í vetur og miklu máli muni skipta að vel takist til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka