Segir Sjálfstæðisflokk ekki eiga að sjá um söluna

Þorgerður Katrín segir frekari sölu ekki geta farið fram á …
Þorgerður Katrín segir frekari sölu ekki geta farið fram á meðan Sjálfstæðisflokkurinn er í fjármálaráðuneytinu. Samsett mynd

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, telur að Vinstri Græn eða Framsókn eigi að sjá um áframhaldandi sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

Þorgerður Katrín og Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, voru gestir í Sprengisandi í dag þar sem rætt var um stöðu ríkisstjórnarinnar og efnahagsmálin.

Sigurður Ingi sagði mikilvægt að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins vinni gegn verðbólgu og háu vaxtastigi í sameiningu. Þá sagði hann ríkisstjórnina hafa axlað ábyrgð með því að breyta skipan stjórnarinnar.

Bjarni Benediktsson og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir höfðu stólaskipti í gær, Bjarni er nú utanríkisráðherra og Þórdís fjármála- og efnahagsráðherra.

Skilur ekkert eftir sérstakt bú

Þorgerður sagði að betra hefði verið að embættið hefði verið fært til þingmanns í flokki Framsóknar eða Vinstri grænna.

„Fráfarandi fjármálaráðherra skilur ekkert eftir sérstakt bú,“ sagði Þorgerður um Bjarna.

Sigurður sagði Þorgerði djarfa, sem fyrrverandi varaformann Sjálfstæðisflokksins, að segja flokkinn of tengdan fjármálakerfinu og geti því ekki klárað söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Hann telji Vinstri græn og Framsókn alveg geta klárað verkefnið, en í grunninn treysti hann ríkisstjórninni til þess.

Þorgerður sagði hins vegar frekari sölu ekki geta farið fram á meðan Sjálfstæðisflokkurinn væri enn í fjármálaráðuneytinu. Benti hún á að í raun væri ekkert verið að reyna að læra af áliti umboðsmanns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka