„Fókusinn hjá okkur er að véfengja allt“

Benedikt Skúlason, forstjóri Lauf cycling, fyrir utan gamla prentsmiðju sem …
Benedikt Skúlason, forstjóri Lauf cycling, fyrir utan gamla prentsmiðju sem hefur nú fengið nýtt hlutverk sem vörumiðstöð Lauf í Bandaríkjunum. Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson/Lauf Cycles

Íslenski hjólaframleiðandinn Lauf cycling opnaði nýverið nýtt vöruhús í Bandaríkjunum sem hugsað er sem mikilvægur hluti í vaxandi sölu fyrirtækisins, en strax eru uppi áform um frekari stækkun þess. Lauf er einnig að leita inn á nýja markaði, en í dag kynnti það til sögunnar nýtt hjól sem Benedikt Skúlason, forstjóri Lauf, segir í tveimur grundvallaratriðum breyta þeirri hefðbundnu hugmynd sem sé til staðar um götuhjól. Hann boðar einnig frekari sókn með þróun fjallahjóls.

Fyrirtækið Lauf byggðist upphaflega upp í kringum rúmlega áratuga gamla hugmynd Benedikts um demparagaffal sem var óhefðbundinn fyrri hjólagöfflum. Notaðist hann við glertrefjafjarðrir í stað hefðbundinna teleskópískra dempara. Upphaflega voru þessir gafflar hugsaðir fyrir fjallahjól, en Lauf hitti svo á rétta tímasetningu við upphaf malarhjólreiða þegar áhugi á þeim fór að springa út um miðjan síðasta áratug og naut töluverðrar hylli malarhjólreiðamanna.

Þótti gaffallinn henta vel fyrir malarundirlag og þann sæmilega hristing sem fylgir slíkum hjólreiðum. Eftir að hafa selt gafflana sér í nokkur ár hóf Lauf að selja malarhjól undir eigin nafni árið 2017, en það fékk nafnið True grit. Í fyrra bætti fyrirtækið svo um betur og annað hjólið, Seigla, leit dagsins ljós. Þá var bætt við einskonar afturfjöðrun, en þar er sveigjanleiki í stellinu sjálfu nýttur á nýstárlegan hátt, án þess að veita jafn mikla dempun og hefðbundinn dempari.

Aftur átti þessi hugmynd vel við malarhjólin og töldu líklega flestir að Lauf væri að einblína á þennan hluta hjólamarkaðarins, en hann hefur verið einn sá mest vaxandi síðasta áratuginn.

Í dag kynnti Lauf nýtt hjól, en ólíkt því sem …
Í dag kynnti Lauf nýtt hjól, en ólíkt því sem margir áttu von á var demparagaffallinn fjarri góðu gamni. Þess í stað kynnti fyrirtækið götuhjól. Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson/Lauf Cycles

Nýtt hjól sameinar stöðugleika og hraða

Benedikt segir í samtali við mbl.is að það sé hins vegar ekki rétt og að fókusinn hjá Lauf sé víðari og í raun sé stefna fyrirtækisins að gera það sem þeim finnist áhugavert og skemmtilegt. Það er því kannski ekki skrítið fyrir verkfræðimenntaðan forstjóra nýsköpunarfyrirtækis að fá áhuga á hlutum sem öðrum hefur reynst erfitt að skýra út og að fást við það sem ekki hefur verið reynt áður. Það hafi verið ákveðið að gera með þessu nýja götuhjóli þar sem upphaflega uppfinning, demparagaffallinn, er fjarri góðu gamni.

Blaðamanni var boðið að heimsækja nýja vöruhúsið í Virginíu, kynna sér aðstæður og líta nýja hjólið augum ásamt nokkrum öðrum erlendum hjólablaðamönnum. Var tækifærið nýtt til að ræða ítarlega við Benedikt um framtíðaráform Lauf og nýja hjólið. Hann segir að hjólið, sem hefur fengið nafnið Úthald, sé að sínu viti fyrsta götuhjólið sem sameini það að vera hratt götuhjól og stöðugleika.

Með hröðu hjóli er oft talað um „aero-hjól“, en það eru hjól sem eru sérstaklega hönnuð með það að markmiði að minnka loftmótstöðu, en það er meðal annars hægt með að straumlínulaga stellið og stýrið.

Þegar talað er um hröð „aero-hjól“ byggir m.a. hönnun stellsins …
Þegar talað er um hröð „aero-hjól“ byggir m.a. hönnun stellsins og stýrisins á því að minnka loftmótstöðu sem mest. Hér má meðal annars sjá slíka lögun á stýrinu, en auk þess er lögun framgaffalsins ekki kringlótt eins og oft má sjá á hefðbundnum hjólum. Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson/Lauf Cycles

Hröð götuhjól einkennast einnig af stöðu hjólarans, en hún er framsækin (e. aggressive). Benedikt segir að þessu hluta sé erfitt að breyta og að þarna sé nýja hjólið ekki frábrugðið öðrum hröðum götuhjólum.

Framdekkið fært framar

„En það sem hefur ekki verið gert áður að okkur vitandi er að sameina það við stöðugleika,“ segir Benedikt. Spurður nánar um þetta segir hann að enginn hafi áður gert götuhjól með hraða stöðu hjólarans í huga, en á sama tíma minnkað hornið á framgafflinum sem geri það stöðugra. Það þýðir í raun að það er verið að færa framdekkið örlítið framar, en það breytir þeim ás sem framhjólið snýst um þegar því er stýrt.

Benedikt segir að með því að færa framhjólið aðeins framar …
Benedikt segir að með því að færa framhjólið aðeins framar náist meiri stöðugleiki, ekki síst þegar brunað er niður brekkur. Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson/Lauf Cycles

Samkvæmt kenningunni ætti slík færsla að gera hjólið stöðugra, en á kostnað þess að það verði ekki jafn lipurt í að beygja. Hefur þessi snerpa auk þess verið tengd við aukinn hraða hingað til. Benedikt segir þetta alveg rétt, en að horfa verði til þess að fæstir noti hjól á þann hátt að þeir vilji geta tekið 90 gráðu beygju á punktinum, heldur skipti flesta meira máli að vera stöðugri þegar farið er niður brekkur. Þetta hafi meðal annars lengi þekkst í fjallahjólreiðum þar sem gafflarnir séu með minna horn og vísi þar með meira fram.

„Hröð hjól frá öðrum framleiðendum eru vísvitandi eiginlega gerð óstöðug,“ segir Benedikt. „Það er drifið áfram af því að þau eru með fjölbreyttar vörulínur og þá er þetta aðgreining.“ Nefnir hann að minna framsækin (e. aggressive) hjól, þar sem ekki sé hugsað jafn mikið um loftmótstöðu og séu þar með hugsuð fyrir aðra en keppendur, séu höfð með stöðugri stýringu. Þar með upplifi þeir sem eru ekki jafn færir að hjóla aukinn stöðugleika og að hjólið sé hægara. Á móti fái reyndari og hraðari hjólarar verri stýringu en upplifi hraðara hjól.

Hjólað um Virginíu, en þar er vöruhús Lauf cycling staðsett.
Hjólað um Virginíu, en þar er vöruhús Lauf cycling staðsett. Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson/Lauf Cycles

Var ekki að kaupa skýringar annarra

Benedikt segir að hann hafi ekki verið að kaupa þessar skýringar, meðal annars vegna þess að reynslan með fyrri malarhjól Lauf hafi verið að stöðugleiki og hraði fari vel saman. Hann hafi því farið að leita skýringa, meðal annars hjá hjólaverkfræðingum annarra merkja. Þar hafi lítið verið um svör um það af hverju þetta tvennt væri ekki sameinað.

„Fólk veit þetta úr fjallahjólum og við vorum frumkvöðlar í þessu með malarhjólin okkar. Við vorum fyrsta merkið sem gerði það af einhverju viti að gefa sér stöðuleika í malarhjóli með hröðu fitti. Viðtökurnar létu ekki á sér standa með þar. Fólk vildi geta farið hraðar niður brekkur án þess að vera stressað,“ segir hann.

Undanfarin ár segir Benedikt að götuhjólaframleiðendur hafi flestir verið að keppa á sama vígvellinum þar sem reynt sé að skafa af sömu grömmin hér og þar með minniháttar breytingum. Segir hann alla jafn góða í að hanna uppbyggingu koltrefja í stellunum og því sé erfitt að aðgreina sig mikið tæknilega frá næsta framleiðanda eða ná fram miklum framförum í þyngd hjólsins.

Hljómar ekki eins og mikið, en eins og dagur og nótt

„En fókusinn hjá okkur er að véfengja allt sem að er gert og við spurðum okkur af hverju þessi uppbygging væri svona.“ Benedikt segir að þar sem enginn hafi getað útskýrt á skynsaman hátt fyrir sér af hverju gaffalhornið væri ekki minna á hröðum götuhjólum þá hafi hann vitað að hann væri komið á bragðið með eitthvað og að á endanum hafi Lauf ákveðið að keyra á þessa nýju hönnun.

Gaffalhornið á nýja hjólinu er 71,5 gráður á móti 73,5 gráðum hjá flestum sambærilegum hjólum að sögn Benedikts. „Þetta hljómar ekki mikið, aðeins tvær gráður, en það er dagur og nótt hvernig er að stýra hjólinu þannig,“ bætir hann við.

Fyrir óvana virðist framgaffallinn mjög svipaður hefðbundnum „racer“-göfflum, en Benedikt …
Fyrir óvana virðist framgaffallinn mjög svipaður hefðbundnum „racer“-göfflum, en Benedikt segir að 2 gráðu breyting þar sem gaffallinn hallar aðeins meira fram en á sambærilegum hjólum, breyti talsverðu varðandi stöðugleika. Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson/Lauf Cycles

Afturfjöðrunin heldur sér

Líkt og Seigla var með afturfjöðrun í stellinu er Úthald einnig með slíka fjöðrun. Benedikt segir að þeirra mælingar sýni að það sé um 4,5 mm fjöðrun fyrir 75 kg hjólreiðamann, en til viðbótar sé um 2,5 mm fjöðrun í nýju glertrefjastýri. Segir Benedikt að prófanir Lauf og upplýsingar samkeppnisaðila bendi til þess að sambærileg hjól séu með afturfjöðrun í stelli upp á 1 til 2,5 mm.  

Þegar farið er ofan í holu getur eftirgjöfin í stellinu rúmlega þrefaldast að hans sögn og farið upp í um 15 mm. Til samanburðar jafngildir það um það bil þeirri fjöðrun sem gömlu 23 mm götuhjóladekkin gefa.

Veðja á breiðari dekk fyrir götuhjól

Þá erum við komin að seinna atriðinu sem Benedikt segir að sé stóra breytingin með nýja hjólinu. Götuhjól áttu lengi vel að vera með sem grennstum dekkjum, jafnvel undir 20 mm. Fyrir um áratug var svo ekki óalgengt að keppendur væru á 23 mm og 25 mm dekkjum. Undanfarið hefur hins vegar þróunin verið í þá átt að setja undir breiðari dekk og er 28 mm orðið mjög algeng stærð. Jafnvel má sjá 30 og 32 mm þegar götuhjólakeppnir eiga sér stað á mjög ósléttu undirlagi.

Úthald mun hins vegar koma með 32 mm dekkjum og segir Benedikt að hjá Lauf telji menn að það auki enn frekar á þægindi og stöðugleika sem leiði svo til aukins hraða. Jafnframt sýni allar nýrri viðnámsprófanir á dekkjum að 28 mm og upp í 32 mm séu hvað hraðasta dekkjabreiddin.

Það tekur á að hjóla í um 30°C hita og …
Það tekur á að hjóla í um 30°C hita og talsverðum raka. Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson/Lauf Cycles

Viðurkennir hann að þegar hraðinn sé orðinn mjög mikill, milli 40 og 50 km/klst geti verið betra að fara í 28 mm, en í kringum 30 km/klst þá séu 32 mm dekkin betri fyrir hefðbundna hjólara. Benedikt segir að eftir því sem undirlagið verði breiðara, eða hjólarinn þyngri, skipti einnig meira máli að vera á breiðari dekkjum upp á hraða að gera.

„Menn fara að átta sig á að stöðugleiki gefur þér hraða.“

Hann segir að hægt sé að koma 35 mm dekkjum undir Úthald, en það er svipuð stærð og þekktist fyrir nokkrum árum aðallega á malar- og cyclocross hjólum.

Segist Benedikt fullyrða að þessi tvö atriði sem Lauf setji núna fram og hann sé að predika muni hægt og rólega síast inn sem hlutur sem aðrir hjólreiðaframleiðendur muni horfa til. „Menn fara að átta sig á að stöðugleiki gefur þér hraða.“

„Við erum að vinna í fjallahjóli

En snúum okkur að rekstri og landvinningum Lauf vestanhafs. Fyrirtækið er enn nokkuð lítið í stóra samhenginu þegar við horfum á hjólamarkaðinn. Benedikt segir hins vegar að það séu uppi stór áform um að stækka fyrirtækið umtalsvert á komandi fimm árum.

Í dag stefnir í að fyrirtækið muni selja um þrjú þúsund hjól að hans sögn, en það væri um 25% aukning frá fyrra ári. Segir Benedikt að velta fyrirtækisins muni hins vegar að mestu haldast óbreytt, en það skýrist af umtalsverðri verðlækkun hjóla í lok síðasta árs. Var velta fyrirtækisins í fyrra um 1,4 milljarðar.

Það er ekki ónýtt hjólalandslagið í Virginíu. Nóg um hæðir …
Það er ekki ónýtt hjólalandslagið í Virginíu. Nóg um hæðir og fjöll til að fara upp, en lítið um jafnsléttur. Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson/Lauf Cycles

En það er ekki bara að Lauf hafi sett nýtt götuhjól á markað. Benedikt segir meira framundan. „Það er komið götuhjól núna og við erum að vinna í fjallahjóli. Það er tími núna þegar brandið er orðið þetta stórt og traustið mikið, þá er tími að fara að stækka út frá því.“

Nýtt vöruhús og stækkun strax í kortunum

Til að mæta aukinni sölu ákvað Lauf í fyrra að opna vöruhús í Bandaríkjunum og fer nú öll samsetning fram þar, en koltrefjastellin eru framleidd í Taívan og íhlutir víða um heiminn. Þar sem Bandaríkin telja fyrir um 80% af sölunni segir Benedikt að það hafi legið í augum uppi að setja vöruhús og samsetningu upp þar.

Eftir að hafa skoðað nokkra staði var ákveðið að velja bæinn Harrisonburg í Virginíu. Það er líklega ekki þekktasti bær Bandaríkjanna, enda um 50 þúsund manna háskólabær nálægt Appalachian-fjallgarðinum. Benedikt segir þetta hins vegar passa vel við dreifingaleiðir og þá hafi umhverfi fyrir nýsköpunarfyrirtæki verið gott þarna.

Benedikt fyrir framan gömlu prentsmiðjuna. Innan skamms mun Lauf fá …
Benedikt fyrir framan gömlu prentsmiðjuna. Innan skamms mun Lauf fá allt húsnæðið undir vörumiðstöð sína og gætu þá starfsmenn orðið nokkrir tugir í Bandaríkjunum. Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson/Lauf Cycles

Lauf tók nýverið yfir gamla prentsmiðju, þar sem bæjarblaðið gamla verður ekki lengur prentað á staðnum, heldur í Washington DC, sem er í um tveggja tíma fjarlægð. Upphaflega fékk Lauf afhent 650 fermetra hluta af prentmiðjunni og hefur nú þegar á nokkrum mánuðum fullnýtt þá aðstöðu, auk þess að smíða aukaloft í hluta rýmisins.

Mun Lauf á næstu mánuðum taka við restinni af húsnæðinu, eða samtals 1.000 fermetrum til viðbótar og segir Benedikt að þar með verði hægt að fara hratt í þá miklu stækkun sem fyrirtækið sjái fyrir sér. Vísar hann í fordæmi frá öðru minna hjólamerki sem hafi einnig eingöngu verið með vefsölu. Það hafi náð árlegri sölu upp á 30 þúsund hjól í nokkuð fókuseruðum geira hjólreiða og segir Benedikt að þá hafi hann vitað að Lauf ætti möguleika að ná sömu tölu með malarhjól.

Með nýja götuhjólinu segir hann þá tölu hins vegar hafa færst enn lengra áfram, en að hann hafi enn auga á 30 þúsund hjóla tölunni sem ákveðinni vörðu.

Úr 9 upp í 20 starfsmenn og ætla að fjölga áfram

Það er þó ekki án fyrirhafnar að ætla að tífalda söluna á fimm árum. Benedikt bendir á að í fyrra hafi níu starfsmenn verið hjá Lauf, þar af tveir í Bandaríkjunum. Í dag er heildarfjöldi starfsmanna búinn að tvöfaldast og er við það detta í 20 manns, en mest öll aukningin hefur verið í Bandaríkjunum. Segir hann ljóst að fyrirtækið muni þurfa að bæta við sig einum starfsmanni í samsetningu ársfjórðungslega til að halda í við vaxtaráformin, en til viðbótar muni þurfa að fjölga aðeins hægar hér á landi, þar sem þróun, markaðsstarf og þjónustuver verða starfrækt.

Kae Takeshita er keppnishjólreiðakona sem leitaði eftir styrk frá Lauf …
Kae Takeshita er keppnishjólreiðakona sem leitaði eftir styrk frá Lauf fyrir um tveimur árum. Ári síðar var búið að ráða hana til að stýra vöruhúsinu. Þegar Benedikt mun flytja heim frá Harrisonburg á næsta ári mun hún einnig taka við og stýra uppbyggingu þar. Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson/Lauf Cycles

Þegar mbl.is ræddi við Benedikt í byrjun síðasta árs sagði hann stefnuna setta á veltu upp á 10-20 milljarða á komandi árum. Hann segir núna að þetta sé planið innan næstu fimm ára og að öll uppbygging síðustu ára og fjárfestingin í Harrisonburg muni hjálpa til við það.

„Núna erum við komin með kúnnahópinn og traustið.“ Segir hann að með tilkomu fleiri hjóla nái Lauf að fylla upp í þarfir fleiri viðskiptavina og að allt markaðsstarf verði auðveldara.

„Allskonar veseniskostnaður

Benedikt segir það þó ekki vandræðalaust að vera í vexti, sérstaklega þegar sett er upp starfsstöð í öðru landi. „Það er allt vesen í vexti, þú ert alltaf að gera nýja hluti með nýjum áskorunum og vandamálum sem þarf að leysa. Þú mætir ekki í vinnuna í rútínu,“ segir hann og hlær. „Það er allskonar falinn kostnaður í að gera nýja hluti – allskonar veseniskostnaður sem fer vaxandi eftir því sem fyrirtækið vex hraðar.“

Lauf hefur síðustu ár verið rekið með tapi og sótt sér í tvígang aukið fjármagn til fjárfesta. Benedikt segir að það sé hluti þess að vera í stækkunarfasa. Það sé erfitt að meta ýmsan þróunarkostnað og „veseniskostnað“ sem fjárfestingu í bókum og því hafi verið bókhaldslegt tap síðustu ár.

Ekki lengur nýsköpunarfyrirtæki, heldur vaxtarfyrirtæki 

Hann segir fyrirtækið nú skoða að sækja enn frekara fjármagn til að fara í umrædda stækkun og að þau telji sig vel til þess fallin að geta sett strax slíka fjárfestingu í vinnu við að auka sölu. Segir hann að hingað til hafi fyrirtækið sótt 100-300 milljónir í hlutafjáraukningu, en að miðað við þessi vaxtarplön sé frekar verið að horfa til þess að sækja 1-2 milljarða.

Kae á fullri ferð niður eina af fjölmörgum brekkum í …
Kae á fullri ferð niður eina af fjölmörgum brekkum í Virginíu. Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson/Lauf Cycles

„Við erum ekki lengur bara nýsköpunarfyrirtæki, heldur vaxtarfyrirtæki og þetta getur því verið fjárfesting sem er möguleg fyrir allt aðra aðila en áður,“ segir hann um mögulega fjárfesta. „Þú ert ekki að kaupa hlut í einhverri sýn, heldur eru þetta hlutir sem þegar eru komnir í gang.“

Ætla ekki að svara öllum köllum markaðarins 

Spurður hvort það eigi að taka hugmyndina um fleiri hjól enn lengra og koma upp fjölbreyttri vörulínu hjóla líkt og stóru merkin eru með tekur Benedikt þó alveg fyrir slíkt. „Við viljum ekki svara öllum köllum og þörfum fólks. Þá endar þú á að gera hjól eins og allir hinir. Það er ekkert spennandi við það, heldur viljum reyna að gera nýja hluti og hrista upp í hlutunum og gera eitthvað spennandi og gera strandhögg þar. Okkur finnst gaman að malarhjóla, götuhjóla og fjallahjóla. Það er líka gaman á rafmagns fjallahjólum. Allt sem okkur finnst skemmtilegt viljum við gera.“

Rafhjól? „Algjörlega, ekki spurning

Spurður nánar um það hvort með þessu sé hann að boða rafmagnshjól frá Lauf segir Benedikt: „Algjörlega, ekki spurning. Það er bara gaman.“ Hann vill þó ekki fara í nánari sálma með einhvern tímaramma um rafmagnshjól, en segist telja botnlausa tækifæri til að gera spennandi hluti með tilkomu rafmagnshjóla. „Ég held að við séum í raun bara rétt að byrja að opna inn á hluti sem það getur leitt til.“

Nýja hjólið fékk nafnið Úthald. Er það í stíl við …
Nýja hjólið fékk nafnið Úthald. Er það í stíl við síðasta hjá Lauf sem fékk nafnið Seigla. Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson/Lauf Cycles

Hjólastígar æðakerfi fyrir allskonar tæki

„Ég held að það sé algjört upphaf hjá hjólabransanum í heild,“ segir hann um rafmagnsmarkaðinn og ef hugsað sé lengra fram í tímann. Þannig segir hann stórt gat á markaðinum þegar komi að bilinu á milli bíla og hjóla. „Það hafa oft hugsjónarmenn á ýmsum tíma hugsað að gera minni og nettari farartæki sem þjóna betur inn í borgir. Veit ekki hversu margir eru að vinna markvisst að fara inn í það hólf, en það er öruggt að það kemur,“ segir Benedikt og spáir því að frekari stökk í þessa átt séu nær okkur í tíma en margir haldi. „Við höfum alveg draumsýn í þessa átt, en engin plön enn sem komið er.“

Í þessu samhengi segir Benedikt að þegar komi að borgarskipulagi þurfi borgir að vera duglegar að fókusa á hjólastíga. „Hjólastígar eru ekki bara hjólastígar, heldur æðakerfi fyrir minni hluti en bíla. Minni tæki sem fara hægar og eru ólíklegri að stúta þér ef þú klessir á. Í dag virkar þetta fyrir hjól, en á morgun kannski fyrir einhvern bræðing sem kemur úr rafmagnshjólum fyrir rest. Við ættum að horfa í þessa átt og ég held að þetta verði byltingin í samgöngum á næstu áratugum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka