Er nóg að trúa því að verðbólgan muni lækka?

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra. Samsett mynd

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag að mikilvægt væri að hafa trú á því að verðbólga gæti lækkað. Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi þessa nálgun Þórdísar og sagði meira þurfa en trú.

Efnahagsástandið og það hvernig nýr fjármálaráðherra ætlar að bregðast við því var til umræðu á Alþingi í dag. Sagði Þórdís Kolbrún að ekki væri innistæða fyrir frekari launahækkunum og ekki stæði til að hækka skatta. 

Kristrún gagnrýndi forvera Þórdísar, Bjarna Benediktsson, fyrir þá afstöðu sína að það væri ekki hlutverk ríkisfjármálanna að vinna bug á verðbólgunni. Hann hafi með því dregið úr eigin trúverðugleika og ýtt undir meiri verðbólgu.

Hún innti Þórdísi eftir því hvort að hún væri sammála forvera sínum að það væri ekki hlutverk ríkisfjármálanna að vinna bug á verðbólgunni. „Það væri ágætisbyrjun hjá hæstvirtum fjármálaráðherra að draga þessi orð forvera síns til baka og lýsa yfir fullum fetum að það sé víst hlutverk ríkisstjórnarinnar að vinna bug á verðbólgu og endurheimta hér efnahagslegan stöðugleika.

Þarf að trúa því að hægt sé að ná verðbólgu niður

Í svari sínu lagði Þórdís áherslu á það að fólk þyrfti að trúa því að hægt sé að ná tökum á verðbólgunni. „Hluti vandans er að fólk þarf auðvitað að trúa því að við munum ná tökum á verðbólgunni. Ef fólk trúir því ekki í nægilegum mæli þá hefur það einfaldlega áhrif á verðbólguna eins og hún er.“

Kristrún virtist ekki nægilega ánægð með svarið. „Ég velti fyrir mér hvort nýja línan hjá ríkisstjórninni sé sem sagt sú að við þurfum bara að trúa því að verðbólgan fari niður og að það sé nóg að ríkisstjórnin tali nógu hátt og nógu oft um að verðbólgan muni fara niður.

Kristrún sagði að trúin ein dugi ekki í ljósi þeirrar stöðu sem nú ríkir í samfélaginu. Kaupmáttur hafi dregist saman fjóra ársfjórðunga í röð. 

„Vandi ríkissjóðs er ekki tekjuvandi heldur útgjaldavandi“

Þórdís sagði að ekki væri sanngjarnt að tala niður stöðu íslensks samfélags með þessum hætti. Það væri á allan hátt með því besta sem fyndist á byggðu bóli. Á Íslandi hefði verið meiri kaupmáttaraukning í mörg ár en í flestum öðrum löndum.

Auðvitað er ekki nóg að segja að fólk verði að trúa því ef það fylgja ekki aðgerðir með. Þá bendi ég líka á að til að mynda allar hugmyndir um meiri háttar útgjaldaaukningu munu leiða það af sér að það verður ekki sá trúverðugleiki sem þarf til að ná tökum á verðbólgu. Vandi ríkissjóðs er ekki tekjuvandi heldur útgjaldavandi.

Ekki innistæða fyrir frekari launahækkunum

Þórdís sagði að ekki væri innistæða fyrir þeim launahækkunum sem sést hefðu síðastliðin ár. Samfélagið hefði komist upp með miklar launahækkanir í talsverðan tíma en sá tími væri liðinn. 

„Ef við meinum það þegar við segjum að við viljum tryggja stöðugleika og tryggja það að fjölskyldur geti greitt af sínum lánum og haldið í sína stöðu þá munu launahækkanir ekki leysa það með krónutölu heldur það að ná tökum á verðbólgu þannig að vaxtastigið lækki.“ 

Hún segist ekki munu leggja til skattahækkanir á millitekjufólk og segir skatta á Íslandi vera of háa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka