„Augljóst að þetta myndi ekki standast“

Fyrirhugað virkjunarsvæði Hvammsvirkjunar í efri hluta Þjórsár.
Fyrirhugað virkjunarsvæði Hvammsvirkjunar í efri hluta Þjórsár. Tölvumynd/Landsvirkjun

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi í gær úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps um að veita Landsvirkjun framkvæmdaleyfi vegna Hvammsvirkjunar.

Þetta kemur fram í úrskurði sem mbl.is hefur undir höndum, en Rúv greindi fyrst frá.

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti framkvæmdaleyfi vegna Hvammsvirkjunar þann 14. júní, en daginn eftir felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála virkjunarleyfið úr gildi, sem áður hafði verið veitt. Úrskurðurinn byggði á fjölda kæra sem nefndinni hafði borist.

Nú er því bæði búið að fella úr gildi framkvæmdar- og virkjunarleyfi sem veitt höfðu verið vegna framkvæmdarinnar. 

Virkjunarleyfið hefur verið ógilt og framkvæmdaleyfið fellt úr gildi.
Virkjunarleyfið hefur verið ógilt og framkvæmdaleyfið fellt úr gildi. mbl.is/RAX

„Augljóst að þetta myndi ekki standast“

Snæbjörn Guðmundsson, formaður Náttúrugriða, sem eru ein þeirra samtaka sem stóðu að kærunum, segir í samtali við blaðamann mbl.is í dag, að þó framkvæmdaleyfið hefði byggt á virkjunarleyfi sem síðar var fellt úr gildi, þá væri það ekki þannig að framkvæmdaleyfið myndi sjálfkrafa falla úr gildi. Af þeirri ástæðu kærðu samtökin ákvörðun sveitastjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Í úrskurði nefndarinnar frá því í gær segir að með ógildingu virkjunarleyfis Hvammsvirkjunar séu efnislegar forsendur framkvæmdaleyfisins brostnar og því verði að fella það úr gildi. Snæbjörn segir þessa ákvörðun hafa verið viðbúna enda „augljóst að þetta myndi ekki standast.“

Snæbjörn segist þó vita til þess að Landsvirkjun sé að leitast við að fá þá undanþágu sem þarf til þess að virkjunarleyfið verði veitt að nýju. Hann segir mjög ströng skilyrði fyrir undanþágunni en óttast að leyfið verði veitt þó skilyrðin séu ekki fyrir hendi.

„Við vitum það alveg í þessum náttúruverndarsamtökum, sem kærðum og erum með þetta í gjörgæslu, að það hefur verið gefið í skyn í fjölmiðlum að þetta séu einskonar formsatriði sem þurfi bara að kippa í lag. Við vitum alveg að það er ekki þannig, þetta er mikli meira en formsatriði,“ segir Snæbjörn og áréttar að fyrir undanþágunni þurfi að vera mjög sterkar ástæður.

Náttúruverndarsjónarmið í samhengi við sjókvíeldi

Til útskýringar á náttúruverndarsjónarmiðum samtakanna á svæðinu setur Snæbjörn sjónarmiðin í samhengi við sjókvíaeldi þar sem laxastofnarnir eru undir miklu álagi. Hann segir að einn stærsti og merkasti laxastofn Íslands sé í Þjórsá og að hann yrði undir miklu höggi ef til Hvammsvirkjunar kæmi enda segir hann að um 30% af búsvæðum laxaseiða séu fyrir ofan virkjunarsvæðið.

„Þú getur ímyndað þér ef að Landsvirkjun fær undanþágu til þess að raska þessu búsvæði þá gætum við lent í því ástandi að allt í einu er búið að kippa fótum undan einum þriðja af laxastofninum. Íslenski laxastofninn er ekki einungis undir álagi, eða í hættu, út af sjókvíeldi heldur líka út af virkjunarframkvæmdum. Þar er Þjórsárlaxinn mjög mikilvægur.“

Inntakslónið sem þarf fyrir Hvammsvirkjun yrði 4 ferkílómetrar að stærð. …
Inntakslónið sem þarf fyrir Hvammsvirkjun yrði 4 ferkílómetrar að stærð. Með því myndu eyjar, hólmar og flúðir í ánni fara á kaf. mbl.is/Golli

Sér ekki fleiri stórvirkjunarkosti

Hvar er þá hægt að virkja?

„Í mínum huga eru allir virkjunarkostir sem hægt er að fallast á út frá náttúruverndarsjónarmiðum búnir,“ segir Snæbjörn sem segist ekki sjá fleiri stórvirkjunarkosti sem hægt yrði að fallast á út frá náttúrunni, með tilliti til vistkerfisins, samhengi, samfellu og náttúrugæðum, náttúrunnar vegna. 

„Það er það sem er búið að klippa í sundur í þessari umræðu, að orkuskiptin snúist einungis um kolefnislosun, en kolefnislosunin er bara önnur hliðin á sama pening. Hinum megin er varðveisla vistkerfa og náttúrunnar. Við getum ekki virkjað okkur út úr loftslagsbreytingunum. En það er það sem íslensk stjórnvöld og orkufyrirtækin ætla að gera.“

Því segir Snæbjörn að ef það vanti orku í einhver verkefni þá verði að taka hana úr öðru því sem núverandi orka er notuð í. Hann segir að búið sé að virkja meira en nóg nú þegar og því ætti að vera hægt að vinna orku innan núverandi kerfis í stað þess að auka álagið á náttúruna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert