Skólabörn skuli ekki þvera þjóðveginn

Vík í Mýrdal.
Vík í Mýrdal. mbl.is

Óeðlilegt er annað en að horfa til þess hve umferðin á hringvegi 1 er orðin mikil um Vík í Mýrdal og nágrenni þegar rætt er um jarðgöng í gegnum Reynisfjall.

Þetta segir Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, spurður út í kröfu sveitarfélagsins um að færa verkefnið framar í forgangsröð stjórnvalda vegna fyrirhugaðra jarðganga.

Ásgerður Kristín Gylfadóttir, formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, sagði í Morgunblaðinu í gær að sveitarfélögin vilji hamra á mikilvægi þessa verkefnis.

Ferðamenn í Reynisfjöru.
Ferðamenn í Reynisfjöru. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vilja tryggja öryggi gangandi vegfarenda

Einar Freyr bendir á að jarðgöngin séu á aðalskipulagi sveitarfélagsins. Stefna þess sé að hringvegurinn fari út fyrir bæinn, enda umferðin aukist gríðarlega vegna fjölda ferðamanna.

„Það hefur verið okkar stefna að það þurfi að tryggja betur öryggi gangandi vegfarenda í gegnum bæinn. Þetta snýst ekki síst um það,” segir sveitarstjórinn og bendir einnig á að vegurinn norðan Reynisfjalls lokist ítrekað á veturna. Slíkt hái rekstraraðilum mjög, bæði hótelum og gististöðum, þegar allt sé jafnvel fullbókað.

„Íbúafjölgunin er búin að vera gríðarlega mikil. Það hefur aldrei verið byggt jafnmikið af íbúðarhúsnæði eins og núna og það er gríðarlegur áhugi á aukinni uppbyggingu. Það að öryggi barna sem búa í bænum sem þurfa að ganga í skólann og þurfa núna að þvera þjóðveginn, það er mikið hagsmunamál fyrir okkur að það sé bætt,” bætir Einar Freyr við.

Einar Freyr Elínarson sveitarstjóri í Mýrdalshreppi.
Einar Freyr Elínarson sveitarstjóri í Mýrdalshreppi. mbl.is/Sigurður Bogi

Brotabrot af umferðinni

Hann telur það ranga forgangsröðun að færa aftar í röðina jarðgöng í gegnum Reynisfjall þar sem umferð og umferðaraukning sé hlutfallslega hvað mest á landinu á sama tíma og ráðast skuli í tugmilljarða framkvæmd við Fjarðarheiðargöng þar sem umferðin sé brotabrot af umferðinni um Mýrdalshrepp. Nefnir hann að um 5.000 bílar fari þar í gegn á degi hverjum á sumrin og umferðin hafi jafnframt aukist mjög á veturna.

Íbúar Mýrdalshrepps eru 974 talsins en á hverjum tíma eru fleiri þúsund ferðamenn á svæðinu þar fyrir utan. „Hann veldur álagi á alla innviði, þessi mikli fjöldi ferðamanna,” greinir Einar Freyr frá og segir íbúafjöldann hafa tvöfaldast á tíu árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka