Gera allt til að tryggja vatn til Eyja

Íris Róbertsdóttir er bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Íris Róbertsdóttir er bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Íris Ró­berts­dótt­ir, bæj­ar­stjóri í Vest­manna­eyj­um, seg­ir að auðvitað sé óþægi­leg til­hugs­un að vatns­lögn­in til Eyja sé það mikið skemmd að bær­inn sé kom­inn yfir á hættu­stig. Það sé þó ekk­ert panik­ástand í gangi. 

Eins og mbl.is greindi frá í morg­un ákvað rík­is­lög­reglu­stjóri, í sam­ráði við lög­reglu­stjór­ann í Vest­manna­eyj­um, að lýsa yfir hættu­stigi al­manna­varna. Er það gert vegna veru­legra skemmda á vatns­lögn­inni.

Í til­kynn­ingu á vef Vest­manna­eyja­bæj­ar, sem Íris, Páll Magnús­son, for­seti bæj­ar­stjórn­ar, og Eyþór Harðar­son bæj­ar­full­trúi rita und­ir seg­ir að allt verði gert til að tryggja vatn til Eyja.

Ákveðið ör­yggi að vera á hættu­stigi

„Það kem­ur auðvitað óþægi­lega við okk­ur öll þegar þær aðstæður skap­ast að flytja þurfi bæ­inn okk­ar á hættu­stig, en því fylg­ir reynd­ar líka ákveðið ör­yggi. Það þýðir að al­manna­varna­yf­ir­völd fylgj­ast mjög náið með stöðu mála og viðbragðsáætlan­ir verða til sam­ræm­is við þær aðstæður sem upp kunna að koma. Bestu sér­fræðing­ar hér­lend­is og er­lend­is eru komn­ir að mál­inu til að tryggja að vatnið haldi áfram að streyma til Eyja,“ seg­ir meðal ann­ars í til­kynn­ing­unni. 

Eins og fram kom í til­kynn­ingu al­manna­varna í morg­un skil­ar vatn­leiðslan fullu vatns­magni þó hún sé skemmd. Einnig að hún hafi færst mikið og því dugi ekki annað en að koma nýrri lögn fyr­ir. 

„Því ber okk­ur að vera búin und­ir all­ar sviðsmynd­ir sem upp geta komið. Bæj­ar­bú­ar verða að sjálf­sögðu upp­lýst­ir sam­stund­is ef breyt­ing verður á þess­ari stöðu og ef þeir þurfa að grípa til ein­hverra ráðstaf­ana, en svo er ekki á þessu stigi,“ seg­ir enn frem­ur í til­kynn­ing­unni. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert