Setja 1,4 milljarða í verkefnið

Lilja leggur áherslu á að málefnið varði allt samfélagið.
Lilja leggur áherslu á að málefnið varði allt samfélagið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áætlað er að um 1,4 milljörðum verði varið í áætlun stjórnvalda í málefnum íslenskrar tungu. Um er að ræða málefni margra ráðuneyta, sem unnið er undir forystu menningar- og viðskiptaráðherra, með það að markmiði að efla íslenska tungu í samfélaginu. 

Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra, Lilja Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra  og Guðmund­ur Ingi Guðbrands­son, fé­lags- og vinnu­markaðsráðherra, kynntu í dag þingsályktunartillögu, um aðgerðaráætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-2026.

Í þingsályktunartillögunni er fjallað um mikilvægi stuðnings við íslenska tungu í stjórnarsáttmála. Um er að ræða afrakstur ráðherranefndar sem sett var á laggirnar að tillögu forsætisráðherra, sem hefur það hlutverk að efla samstarf milli ráðuneyta um málefni íslenskrar tungu og tryggja samhæfingu þar sem málefni skarast. 

Tímamóta aðgerðaráætlun

Lilja segir áætlað að verja um 1,4 milljörðum í aðgerðaráætlun verkefnisins. Það sé þó ljóst að einstaka atriði þurfi að fjármagna betur, segir hún, og nefnir sem dæmi Samevrópska tungumálarammann, sem er í farvegi og verður settur inn í næstu fjármálaáætlun. 

„Þetta er algjör tímamóta aðgerðaráætlun til að styðja við bæði vörn og sókn tungumálsins,“ segir Lilja og leggur áherslu á að málefnið varði allt samfélagið. Sem dæmi leggja stjórnvöld ríka áherslu á viðhorfsbreytingar, til að mynda með skilaboðum um að íslenskan skuli í hávegum höfð. 

Hluti ráðherranefndarinnar kynnti þingsályktunartillögu um aðgerðaráætlun í málefnum íslenskrar tungu …
Hluti ráðherranefndarinnar kynnti þingsályktunartillögu um aðgerðaráætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-2026. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkari skyldur lagðar á innflytjendur um að læra tungumálið

Að sögn Lilju verða ríkari skyldur lagðar á innflytjendur um að læra tungumálið, enda gríðarlega mikilvægt að ná árangri á því sviði. 

„Til þess að tungumálið lifi, þá þurfum við að hafa eitt málsamfélag.“

Til að ná tilsettum árangri verður aðgengi að íslenskunámi stóraukið, segir Lilja og bendir á að ekki sé hægt að setja ákveðnar skyldur eða kröfur, þegar námsframboð er ekki nægilega gott. 

Gríðarlegur áhugi úr atvinnulífinu

Eitt af markmiðum ráðherranefndarinnar er að stuðla að auknum sýni- og heyranleika íslensku í almannarými, í breiðri samvinnu atvinnulífs og stjórnvalda. 

Ég vil hrósa atvinnulífinu. Atvinnulífið hefur sýnt gríðarlegan áhuga á að stuðla að því að íslenskan sé ávallt fyrsta tungumálið,“ segir Lilja sem hefur til að mynda átt í mjög farsælu samstarfi við samtök aðila í ferðaþjónustu. Þau hafa verið mjög öflug við að hvetja sitt starfsfólk til að sækja námskeið í íslensku, segir Lilja, „einmitt til að lyfta tungumálinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert