Tryggja að innflytjendur sæki íslenskunám

Lilja segir helstu breytinguna felast í því að hingað til …
Lilja segir helstu breytinguna felast í því að hingað til hefur íslenskunám verið valkvætt fyrir þá sem flytja til landsins á fullorðinsárum og fáir hvatar til staðar til að stuðla að markvissu íslenskunámi með skýrum ávinningi. mbl.is/Eyþór

Í fyrsta sinn er verið að gera kröfur á innflytjendur um íslenskunám. Þá hefur möguleikinn á skýrari forkröfum vegna hæfni innflytjenda á vinnumarkaði verið opnaður. Auk þess að skýra réttindi borgara sem hafa annað móðurmál en íslensku. 

Þannig að hér er kominn mjög sterkur vísir að því að gerðar séu ríkari kröfur til íslenskukunnáttu þeirra sem eru á vinnumarkaði.

Þetta segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, spurð hvaða kröfur verði gerðar um íslenskukunnáttu innflytjenda, með nýrri þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-2026. 

Aðgerðaráætlun í málefnum íslenskrar tungu 

Ráðherra­nefnd um mál­efni ís­lensk­unn­ar kynnti á miðvikudag áherslumál og forgangsverkefni hópsins, með nýrri þingsályktunartillögu um aðgerðaáætl­un í mál­efn­um ís­lenskr­ar tungu 2023–2026, sem brátt verður lögð fram á Alþingi. 

Meðal þeirra mál­efna sem lögð er áhersla á í ­til­lögunni er hvaða skyld­ur og þar með hvaða rétt­indi inn­flytj­end­ur hafa þegar kem­ur að ís­lenskri tungu. 

Styrkja stöðu íslenskrar tungu til framtíðar

Um er að ræða tvær aðgerðir í tillögunni, sem eru til þess fallnar að auka áherslu á að innflytjendur öðlist grunnfærni í íslensku, segir Lilja og bætir við að unnið sé að því að þróa hvata til þess. Þannig sé í fyrsta sinn verið að fjalla um að grunnfærni verði skilgreind og kortlögð af norrænum fyrirmyndum. 

Til útskýringar segir Lilja að með þessu sé verið að skoða hvernig megi tryggja að ákveðinn hópur innflytjenda sæki nám í íslensku og nái árangri í náminu. Með það að markmiði að koma í veg fyrir jaðarsetningu, stuðla markvisst að inngildingu og styrkja stöðu íslenskrar tungu til framtíðar. 

Lilja segir helstu breytinguna felast í því að hingað til hefur íslenskunám verið valkvætt fyrir þá sem flytja til landsins á fullorðinsárum og fáir hvatar til staðar til að stuðla að markvissu íslenskunámi með skýrum ávinningi. Nú eigi hins vegar að skilgreina betur kröfur til innflytjenda um íslenskunám. 

Hún segir þróunina mjög jákvæða, en vekur athygli á því að þessi aðgerð þingsályktunartillögunnar heyri undir félags- og vinnumálaráðherra. 

Erfitt að gera sömu kröfu til allra

Spurð hvort gerð verði krafa á innflytjendur um að ljúka ákveðnu hæfnistigi í íslensku til að komast á vinnumarkað, segir Lilja vinnuna ekki komna á það stig. Nú sé einungis verið að skilgreina grunnfærnina og kortleggja, með hliðsjón af norrænni fyrirmynd. 

Þannig að það verður mun skýrari rammi um íslenskunám og aukið aðgengi,“ segir hún og bætir við að ekki sé hægt að segja til um hvort eða hverjar hömlurnar verði fyrir þá sem ekki leggja stund á íslenskunám. 

„Nú er verið að þróa hvata og hvernig megi tryggja að þessir hópar sæki nám. Þetta er vegferð og það eru deildar meiningar um hvað eigi að ganga langt,“ segir Lilja, enda erfitt að gera sömu kröfur til allra innflytjenda, þrátt fyrir að hægt sé að gera kröfur um ákveðna grunnfærni, sem þó getur tekið fólk mislangan tíma að afla sér.  

Til þess að ná tilsettum markmiðum, sem snúa að starfstengdu íslenskunámi fyrir innflytjendur, verða lagðar 75 milljónir króna á ári í verkefnið, frá árinu 2023 til ársins 2026.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert