Miklar breytingar á leikskólastarfi í Hafnarfirði

Frá leikskóla í Hafnarfirði.
Frá leikskóla í Hafnarfirði. Ljósmynd/Hafnarfjarðarbær

Hafnarfjarðarbær hefur boðað breytingar á leikskólastarfi sem fela í sér aukinn sveigjanleika, auk þess sem gjöld lækka fyrir sex tíma vistun.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Breytingarnar eru í takt við það sem bæjaryfirvöld í Garðabæ og Kópavogi hafa þegar ákveðið. 

Breytingarnar eru í meginatriðum þessar:

  • Skipulagi leikskóladagsins verður skipt upp í kennslu og frístundastarf
  • Leikskólagjöld fyrir 6 tíma vistun lækka umtalsvert
  • Leikskóladagatal með skipulagðri kennslu verður 180 dagar
  • Stytting vinnuvikunnar hjá starfsfólki fest niður á ákveðna daga og tímabil
  • Opnunartími leikskóla frá 7:30-16:30

„Við boðum miklar breytingar umfram þær sem við höfum þegar hrint í framkvæmd á árinu. Árangur þeirra aðgerða er sýnilegur sérstaklega þegar litið er til hlutfalls fagmenntaðra innan leikskólanna sem hefur fjölgað á árinu. En ljóst var að grípa þyrfti til enn frekari breytinga á skipulagi leikskóladagsins til að koma til móts við væntingar og kröfur,” segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, í tilkynningunni.

Hafnarfjörður.
Hafnarfjörður. mbl.is/Sigurður Bogi

„Dagvistun barna er gríðarstórt viðfangsefni samfélagsins alls og það er forgangsmál að þetta kerfi virki. Því þarf að leita allra leiða í því skyni að þróa leikskólastarf til að geta boðið þá þjónustu sem nauðsynleg er. Ég bind miklar vonir við að við séum að móta og skapa nýja framtíð leikskólanna með þessum breytingum,“ segir hún.

Aðgerðirnar sem farið var í fyrr á árinu fólu m.a. í sér 36 stunda vinnuviku fyrir allt starfsfólk leikskólanna, aukið samræmi milli fyrstu skólastiganna, heimgreiðslur til foreldra og stofn- og aðstöðustyrki til dagforeldra, að því er segir í tilkynningunni. 

Samhliða var boðuð endurskipulagning leikskóladagsins og nýverið skilaði starfshópur af sér skýrslu með ellefu aðgerðum sem byggja á ítarlegum greiningum og samtali við hlutaðeigandi aðila leikskólasamfélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert