Mygla í húsnæði almannavarna

Starfstöðvar almannavarna, slökkviliðs, Landsbjargar, Landhelgisgæslunnar o.fl. eru í Skógarhlíð 10.
Starfstöðvar almannavarna, slökkviliðs, Landsbjargar, Landhelgisgæslunnar o.fl. eru í Skógarhlíð 10. mbl.is/Kristinn Magnússon

Almannavarnir munu þurfa að færa starfstöðvar sínar annað eftir að mygla fannst fundarherbergi samhæfingarstöðvar almannavarna að Skógahlíð. Rýminu hefur verið lokað. Þetta staðfestir Hjör­dís Guðmunds­dótt­ir, upp­lýs­inga­full­trúi al­manna­varna, í samtali við mbl.is. 

Sjáanlegur leki var í útvegg húsnæðisins og hefur myglan einnig áhrif á aðra starfsemi í húsinu.

„Þetta þýðir náttúrulega það að við þurfum að fara að finna húsnæði,“ segir Hjördís í samtali við mbl.is.

„Auðvitað viljum við ekki að fólk sé þarna niðri. Þannig við höfum bara ákveðið að fólk verði bara eins lítið og hægt er þarna á meðan við erum að finna út úr þessu nýja húsnæði.“

Margir veikir undanfarna daga

Hjördís bendir á að í raun þurfi að finna tímabundið rými fyrir alla starfsemi almannavarna, vegna þess að starfsemi almannavarna hangir mikið saman við samhæfingarstöðina.

Hún staðfestir að mikið af veikindum hafa verið hjá starfsfólki samhæfingarstöðvarinnar undanfarna daga sem leiddi til þess að sýni hafi verið tekið.

„Við erum búin að vera mikið í samhæfingarstöðinni undanfarnar vikur – óvenjumikið kannski,“ segir hún. 

Hjördís á einum af upplýsingafundum almannavarna í Skógarhlíð í nóvember.
Hjördís á einum af upplýsingafundum almannavarna í Skógarhlíð í nóvember. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fleiri finna fyrir áhrifum myglunnar

Landhelgisgæslan, slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu og slysavarnarfélagið Landsbjörg eru einnig til húsa að Skógarhlíð 14.

Hjördís segir að myglan hafi einnig áhrif á aðra starfsemi í húsnæðinu. Það sé „sameiginlegt verkefni þessara aðila“ að finna lausn á málunum, þó enn sé ekki komið á hreint hverjir munu þurfa að færa sig um húsnæði.

Hún segir að myglan, sem fannst í suðaustanverðum útvegg húsnæðisins, hafi mest áhrif á almannavarnir.

„Ef eitthvað kæmi upp á í dag þá er hún [samhæfingarstöðin] enn nothæf,“ segir Hjördís að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka