„Allt fullt af vopnum“ á heimili hins látna

Frá Ólafsfirði í dag.
Frá Ólafsfirði í dag. mbl.is/Sonja

Vitni í Ólafs­fjarðar­mál­inu svo­kallaða seg­ir að alltaf hafi verið „allt fullt af vopn­um“ á heim­ili Tóm­as­ar Waag­fjörð. Tóm­as lést í kjöl­far tveggja stunga 3. októ­ber á síðasta ári og er Steinþór Ein­ars­son ákærður fyr­ir að hafa orðið hon­um að bana. 

Aðalmeðferð í mál­inu hófst í Héraðsdómi Norður­lands eystra í dag.

Vitnið, kona á ald­ur við ákærða, var sof­andi eft­ir mikla drykkju þegar at­vikið átti sér stað, en það varð á heim­ili henn­ar á Ólafs­firði aðfaranótt mánu­dags­ins 3. októ­ber 2022. Var hún vin­kona eigi­konu Tóm­as­ar, en eig­in­kona Tóm­as­ar lést 20. októ­ber á þessu ári.

Storma­samt sam­band

Í skýrslu­töku fyr­ir héraðsdómi í dag lýsti vin­kon­an því að sam­band hins látna, Tóm­as­ar, og konu hans hafi verið mjög storma­samt. Af þeim sök­um dvaldi Steinþór á heim­ili vin­kon­unn­ar, en ekki kon­unn­ar, þegar hann kom í heim­sókn. Steinþór og eig­in­kona Tóm­as­ar voru æsku­vin­ir. 

Laug­ar­dag­inn 1. októ­ber var lög­regla kölluð að heim­ili Tóm­as­ar og eig­in­konu hans. Fylgd­ist vin­kon­an með því af svöl­un­um sín­um. Um tveim­ur klukku­stund­um síðar kom lög­regl­an með hana á heim­ili vin­kon­unn­ar. Seg­ir vin­kon­an að kon­an hafi verið mar­in í fram­an.

Vin­kon­an seg­ir að hún hafi verið að drekka áfengi alla helg­ina og þegar lög­regla hafi komið með kon­una á heim­ili henn­ar á laug­ar­deg­in­um hafi þær haldið áfram að drekka sam­an. Þær hafi svo haldið áfram að drekka á sunnu­deg­in­um líka. 

Ætlaði að fara frá Tóm­asi

Um miðjan dag á sunnu­deg­in­um seg­ist vin­kon­an hafa farið yfir til Tóm­as­ar og sótt föt eig­in­konu hans og dót. Hafi hún tjáð hon­um að eig­in­kona hans ætlaði að fara frá hon­um og fara til Reykja­vík­ur dag­inn eft­ir. 

Aðspurð seg­ir hún að Tóm­asi hafi ekki brugðið við að heyra það og ekki virst reiður. 

Þegar Snorri Sturlu­son, verj­andi Steinþórs, spurði hvort ein­hver vopn hefðu verið á heim­il­inu svaraði kon­an: „Það er allt fullt af vopn­um í þessu húsi, bara alltaf“.

Um­rætt kvöld kom Tóm­as yfir til vin­kon­unn­ar til að reyna að sann­færa eig­in­konu sína um að koma aft­ur heim. Þar sátu kon­an og Steinþór í eld­hús­inu er hann kom. Eft­ir orðaskipti kom til átaka milli Tóm­as­ar og Steinþórs. Seg­ir Steinþór að Tóm­as hafi dregið upp hníf og ráðst á sig.

Tóm­as lést í kjöl­far átak­anna með tvö stungusár, annað í slagæð í mjöðm. Er Steinþór ákærður fyr­ir mann­dráp af ásetn­ingi. Neit­ar hann sök og ber fyr­ir sig neyðar­vörn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert