Verð á jólamat hækkaði um 6-17% milli ára, samkvæmt verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ. Mest hækkaði verðið í versluninni Iceland, en minnst í Heimkaupum.
Verðum var safnað þann 13 desember árið 2023 og þau borin saman við verð í sambærilegri könnun sem framkvæmd var fyrir ári, 13. desember 2022.
Hækkun verðs var að meðalatali um 6% í Heimkaupum en þar af hækkaði verð á brauði og kökum um aðeins 2%, en verð á drykkjum hækkaði um heil 16%.
Í Nettó, Krónunni, Kjörbúðinni og Bónus hækkaði verð að meðaltali um 7-9%. Mest hækkaði verð í Iceland, að meðaltali 17%, Hagkaupum um 15% og Fjarðarkaupum um 13%. Drykkjarvörur í Iceland voru sá flokkur sem mest hækkaði í verði, eða um 48%.
Tíðastar voru verðhækkanir í Hagkaupum, þar sem 95% af vörum hækkuðu í verði milli ára. Verð hækkaði sjaldnast í Heimkaupum, eða í tveimur tilfellum af þremur.
Leiddi könnun ASÍ í ljós að drykkir og konfekt hafi hækkað mest í verði á milli ára. Verðhækkun á konfekti skipti jafnvel tugum prósenta í sumum tilfellum.
Að meðaltali hækkaði verð á drykkjarvörum mest eða á bilinu 10-48% milli ára. Verð á konfekti hækkaði mest í Iceland um 29% og um 24% í Hagkaup. Var verðhækkunin minnst í Heimkaupum eða um 9%.
Þá hækkaði verð á SS birkireyktu úrbeinuðu læri um 12-20% og verð á léttreyktum Kea lambahrygg um 13-35%.