Stöðug fækkun í fálkastofninum

Fálkastofninn er í lágmarki og vel þarf að fylgjast með …
Fálkastofninn er í lágmarki og vel þarf að fylgjast með þróuninni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þessi þróun hef­ur verið und­an­far­in 3-4 ár,“ seg­ir Ólaf­ur Karl Niel­sen, fugla­fræðing­ur hjá Nátt­úru­fræðistofn­un, um stöðuga fækk­un í fálka­stofn­in­um.

Hann bæt­ir við að vel þurfi að fylgj­ast með gangi mála því stofn­inn hafi mælst tals­vert minni árið 2023 en gert hafði verið ráð fyr­ir.

Eng­in ör­deyða

Rann­sókn­ir hafa verið stundaðar á stofn­stærð fálka á Norðaust­ur­landi síðan 1981, en um 10-15% af heild­ar­stofni fálka á Íslandi verpa á þessu svæði seg­ir Ólaf­ur. Fálk­ar helga sér óðul og eru þar allt sitt líf og óðalið geng­ur til næstu kyn­slóðar fugla og eru mörg tal­in hafa verið notuð frá upp­hafi fálka­byggðar. Í sum­ar voru öll óðulin heim­sótt til að telja hversu mörg voru í ábúð og í ljós kom að 41% þeirra var virkt. Fækk­un í varp­s­tofn­in­um gæti end­ur­speglað mik­il af­föll geld­fugla, sem hefði áhrif á nýliðun, en einnig af­föll óðals­fálka.

Rjúp­an er helsta fæða fálka og Ólaf­ur seg­ir að oft sé teng­ing á milli stofn­stærðar þess­ara teg­unda í eðli­legu ár­ferði. „Miðað við rjúpna­fjöld­ann og hvernig þess­ir tveir stofn­ar, rjúpna­stofn­inn og fálka­stofn­inn, hafa hagað sér áður og eins hversu góð viðkom­an var hjá fálk­an­um fyr­ir nokkr­um árum, 2018 og 2019, hefði maður bú­ist við stærri stofn­stærð.“ Ólaf­ur seg­ir að þótt ekki sé mikið af rjúpu þá sé það eng­in ör­deyða miðað við það sem oft hafi verið áður.

Frá 70 pör­um í 40 pör

„Varpið gekk mjög vel þessi ár svo maður hefði bú­ist við að nýliðun hefði auk­ist núna. En ung­ar sem voru að klekj­ast úr eggj­um 2018 og 2019 virðast ekki vera að skila sér,“ seg­ir Ólaf­ur og bæt­ir við að fálka­stofn­inn sé ekki stór fyr­ir.

„Þetta eru í besta falli 3-400 varppör og svo kannski ein­hver hundruð ókynþroska fugla. Á bestu ár­un­um vær­um við að tala um í kring­um 2.000 ein­stak­linga, en tal­an er kom­in neðar núna en við höf­um séð áður,“ seg­ir hann. „Á þessu svæði hafa verið 70 pör og núna í ár voru þau kom­in niður í 40, sem er mikið fall.“

Sýk­ing frá sjó­fugl­um

Ólaf­ur tel­ur að lík­leg­asta skýr­ing­in á því að nýliðun er ekki að skila sér sé fuglaflensa. „Fuglaflensa herj­ar helst á sjó­fugla hér við land, m.a. súl­una, sem er frek­ar óvenju­legt æti fyr­ir fálka. En fálk­ar leggj­ast á hræ og ef þeir finna dauða eða deyj­andi fugla þá éta þeir þá, þótt þeir yf­ir­leitt snerti ekki súl­una.“ Hann bæt­ir við að fyr­ir rúmu ári hafi fálki sést leggj­ast á súlu, sem lík­lega hafi verið flensu­dauður fugl, og eins hafi MAST staðfest fuglaflensu í ein­um fugli árið 2022.

Lesa má meira um málið í Morg­un­blaðinu í dag. 

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert