Leita þar til maðurinn finnst

Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum í Grindavík í dag.
Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum í Grindavík í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við komum til með að leita þar til við finnum hann,“ segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is í Grindavík.

Viðbragðsaðilar hafa verið að störfum við sprunguna frá því fyrir hádegi í dag eftir að tilkynnt var um að maður hefði fallið ofan í sprungu. Var hann að þjappa jarðveg í sprungu þegar slysið varð. 

„Nú leitum við mannsins. Við höfum ekki fundið hann,“ segir Úlfar spurður hvort viðbragðsaðilar viti um það bil hvar maðurinn sé í sprungunni.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Sprungan er djúp

Úlfar kveðst ekki vera með nákvæmlega dýpt á sprungunni né hversu löng hún er. 

„En sprungan er djúp,“ segir Úlfar. 

Hann segir vinnu þessa stundina miða að því að tryggja vinnuaðstæður fyrir björgunaraðila. 

Myrkur er skollið á en vettvangurinn er lýstur upp með sterkum ljósum. 

Verkfæri mannsins fannst fyrr í dag og segir Úlfar að um jarðvegsvinnutæki sé að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert