Neðri hæðinni lokað vegna myglu

Leikskólinn Fagrabrekka.
Leikskólinn Fagrabrekka. Ljósmynd/Kópavogsbær

Neðri hæð leikskólans Fögrubrekku í Kópavogi lokar frá og með morgundeginum vegna myglu.

Leikskólinn verður lokaður allan morgundaginn, 7. febrúar, vegna undirbúnings breytinga á starfsemi skólans. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kópavogsbæ.

Verkfræðistofan Mannvit framkvæmdi myglupróf í kjölfar ábendinga foreldra og starfsmanna. Myglusveppir fundust undir gólfdúk og myglugró hefur borist um neðri hæðina.

Starfsemi yngri deildar hefst 12. febrúar

Frá fimmtudegi, 8. febrúar, verður tekið á móti börnunum sem eru á Rauðubrekku, á efri hæð.

Börnin á Gulubrekku verða tímabundið í húsnæði Kópavogsbæjar að Furugrund 3, þar sem leikskólinn Furugrund er einnig með starfsemi. Starfsemi yngri deildar hefst í Furugrund 3, mánudaginn 12. febrúar.

Á morgun, miðvikudag, verður hafist handa við þrif og sótthreinsun efri hæðar í samræmi við ráðgjöf sérfræðinga og sýni tekin í framhaldinu, að því er fram kemur í tilkynningunni frá Kópavogsbæ.

„Viðgerð hefst eins fljótt og auðið er en umfang liggur ekki fyrir og því ekki unnt að áætla framkvæmdatíma að svo stöddu,“ segir enn fremur en alls eru 68 börn í Fögrubrekku; 32 á Gulubrekku og 36 á Rauðubrekku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka