Sakborningarnir ekki hættulegir í augum læknisfræðinnar

Sindri Snær, Einar Oddur Sigurðsson og Sveinn Andri Sveinsson.
Sindri Snær, Einar Oddur Sigurðsson og Sveinn Andri Sveinsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Geðlæknir segir það ljóst að Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson, sakborningarnir í hryðjuverkamálinu, þjáðust ekki af sjúkdómum sem leiddu til þess að þeir gætu ekki stjórnað gjörðum sínum. Er matsgerð læknisins var gerð árið 2022 áttuðu mennirnir sig á alvarleika þess að fremja hryðjuverk.

Auk geðlæknisins komu fimm vitni fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í hryðjuverkamálinu eftir hádegi, þar á meðal var kærasta Ísidórs. Alls tólf manns komu í skýrslutöku á öðrum degi réttarhaldanna. Hér fyrir neðan má lesa um vitnisburð meðal annars föður og kærustu Sindra.

Með nasistafána í geymslunni

Kærasta Ísidórs var fyrst til að bera vitni eftir hádegishlé. Ísidór mætti með henni en hann var fjarverandi réttarhöldin í morgun og yfirgaf þau um leið og kærastan fór.

Parið hefur verið saman í nærri sjö ár, en Ísidór greindi frá því í gær að þau eigi von á barni.

Fyrsta spurning Karls Inga Vilbergssonar saksóknara var hvort það væri rétt að það hefði verið til nasistafáni á heimili parsins. Fáninn fannst í geymslu á heimili þeirra við húsleit lögreglu og játaði kærastan að Ísidór átti fánann. Hún sagði hann þó ekki hafa verið til sýnis.

Karl Ingi Vilbergsson saksóknari.
Karl Ingi Vilbergsson saksóknari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Karl Ingi saksóknari spurði kærustuna þá út í afstöðu Ísidórs er kemur að útlendingum. Hún sagði hann ekki vera beint á móti útlendingum en lýsti skoðunum hans á eftirfarandi hátt: „Íslendingar á undan, eins og með húsnæðismál og svoleiðis“.

Ísidór sagðist fyrir dómi í gær vera rasisti og einangrunarsinni.

Ísidór reyndi að vera kúl

Næst var kærastan spurð út í þrívíddaprentara sem lögregla fann inn í geymslu parsins. Kærastan sagði að Ísidór hafi prentað út alls konar smáhluti í byssur.

Hún sagði byssurnar vera eins og „dótabyssur“. Sindri viðurkenndi fyrir dómi í gær að hann hafi selt fimm þrívídda prentaðar byssur.

Í skýrslutöku lögreglu sagði kærastan Ísidór oft reyna að vera „stórkarlalegan“ og sagði fyrir dómi að hún meinti að hann reyndi oft að vera kúl.

Hún sagði að Ísidór myndi aldrei beita fólk ofbeldi.

Spurð út í samskipti sakborninganna sagðist hún „aðeins“ vita af samskiptum félaganna. Hún sagði enga meiningu vera á bakvið samskiptin.

Ísidór í dómssal í gær.
Ísidór í dómssal í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Planað framtíðina saman

Að lokum var kærastan spurð hvaða áhrif málið hefur haft á líf parsins. Kærastan sagði að málið hafði haft rosalega slæm áhrif á þau, sérstaklega andlega.

„Rosalega fáránlegt að hann myndi gera eitthvað svona [hryðjuverk],“ sagði kærastan.

Hún sagði að þau hafi planað framtíð sína saman og Ísidór myndi aldrei leggja þá framtíð í í hættu með því að eiga möguleika á að fara í fangelsi.

Tetra-talstöðvar

Næstur til leiks var rekstrarstjóri ferðaþjónustufyrirtækis sem Sindri vann hjá.

Sindri keyrði trukka að sögn rekstrarstjórans og var leiðsögumaður. Sindri byrjaði hjá fyrirtækinu árið 2021 sem launþegi, hætti síðan í nokkra mánuði og byrjaði aftur hjá fyrirtækinu árið 2022 sem verktaki og starfaði hjá því þar til hann var handtekinn.

Sindri Snær og Sveinn Andri.
Sindri Snær og Sveinn Andri. Eggert Jóhannesson

Rekstrarstjórinn var spurður út í svokallaðar tetra-talstöðvar sem Sindri og Ísidór eru sagðir, samkvæmt ákæru, hafa ætlað að verða sér úti um til að dulbúast sem lögreglumenn og fremja voðaverk.

Maðurinn sagði að þó nokkrir starfsmenn fyrirtækisins eigi eigin tetra-talstöðvar og eru talstöðvarnar keyptar í gegnum fyrirtækið.

Tetra talstöðvarkerfið er rekið af neyðarlínunni en það er öflugt hópfjarskiptakerfi, sérsniðið að þörfum viðbragðsaðila.

Hvað er árásarrifill?

Þá kom erlendur vopnasali fram fyrir dómi. Hann hefur starfað sem vopnasali á Íslandi í fimm ár og erlendis fyrir þann tíma.

Maðurinn sagðist hafa selt föður Sindra skotfæri, engin vopn, og að hann hafi verið í samskiptum við Sindra útaf því í ágúst árið 2022.

Skotfæri sem lögregla lagði hald á.
Skotfæri sem lögregla lagði hald á. mbl.is/Hallur Már

Sindri vildi einnig kaupa magasín í riffil af vopnasalanum en sú sala fór ekki í gegn.

Verjendur og saksóknari hafa deilt um hvað árásarrifill sé í aðalmeðferðinni. Vopnasalinn var spurður hver hans skilgreining væri á slíkum vopnum.

Hann sagðist ekki hafa selt þá sjálfur og að enginn löglega skýring væri til á árásarrifflum. Fyrir honum væri árásarriffill rifill sem væri hægt að breyta úr hálfsjálfvirkum yfir í alsjálfvirkan riffil.

Rifflarnir sem hafa verið til umræðu í dómsmálinu eru einskota en Sindri gengst undir að hafa breytt öðrum þeirra svo hann yrði hálfsjálfvirkur, það hafði þó tekist illa til að sögn föður hans og Sindra sjálfs.

Tæknifræðingur sem var næsta vitni var hins vegar ósammála því ástandsmati á rifflinum.

Rifflar í dómssal

Tæknifræðingurinn var fenginn af lögreglu til að skoða vopn sem lögregla gerði upptæk í tengslum við málið.

Maðurinn skoðaði meðal annars AR-15 riffilinn sem Sindri breytti.

Rifflar sem lögregla lagði hald á sjást á myndinni.
Rifflar sem lögregla lagði hald á sjást á myndinni. mbl.is/Hólmfríður María

Tæknifræðingurinn lýsti því fyrir dómi hvernig hann tók riffilinn í sundur og skoðaði meðal annars hlaup byssunnar að innan. Þar sást lítið gat sem Sindri hafði borað til að breyta honum.

Maðurinn sagði að þannig hefði riffilinn farið úr því að vera handhlaðinn einu sinni yfir í að hægt væri að taka í gikkinn aftur og aftur með hléum án þess að þurfa hlaða byssuna sérstaklega.

Tæknifræðingurinn sagði að riffilinn hefði verið prófaður sem staðfesti að vopnið væri hálfsjálfvirkt. Þannig væri hægt að tæma heilt magasín, 30 skot, á tíu sekúndum með rifflinum.

Sindri sagði í skýrslutöku fyrir dómi í gær að hann hefði vissulega breytt rifflinum en að hann hefði svo breytt honum aftur til baka sama dag og hann og faðir hans prufuðu hann.

Sveinn Andri færði til borð til þess að koma byssunum …
Sveinn Andri færði til borð til þess að koma byssunum fyrir á. Ljósmyndara var ekki leyfilegt að mynda vopnin í dómssal. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sveinn Andri bað tæknifræðinginn á einum tímapunkti að sýna dómþingi betur AR-15 riffilinn. Á meðan hann hélt á rifflinum útskýrði hann betur hvernig rifflinum hefði verið breytt.

Ljóst var að Sindri var ekki sammála tæknifræðingnum um ástand riffilsins nú.

Sindri reyndi að spyrja tæknifræðinginn spurningu en dómari þurfti að stoppa hann af og benda á að verjendur spyrji vitni spurninga, ekki sakborningar.

Tæknifræðingurinn sagði að ekki hver sem er gæti breytt riffli í hálfsjálfvirkan.

Hefðu gert riffilinn alsjálfvirkan

Tæknifræðingurinn skoðaði einnig svokallaðan swift link eða, hröðunarstykki. Hann sagði að um væri að ræða hlut sem hægt væri að þrívídda prenta út, en stykkið sem sakborningarnir prentuðu út var ónothæft.

Tæknifræðingurinn lýsti því að ef stykkið hefði virkað hefði riffilinn geta orðið alsjálfvirkur. Þá þarf ekki að sleppa gikknum til að hleypa af öðru skoti.

Þá skoðaði maðurinn veiðiriffil sem Sindri keypti á Grænlandi og flutti til landsins með hjálp vopnasala. Hann sagði muninn á þessum riffli og AR-15 og AK-47 rifflunum vera töluverður. Hann sagði að ekki væri hægt að breyta veiðirifflinum í hálfsjálfvirka riffla.

„Sjá eftir þessu glannaskap sínum“

Síðasta vitni dagsins var geðlæknirinn sem sagt var frá í inngangi. Hann gerði geðmat á sakborningunum er þeir voru í gæsluvarðhaldi á Hólmsheiði. Í kjölfarið voru þeir látnir lausir.

Læknirinn sagði að báðir mennirnir hefðu svarað eins heiðarlega og „opinskátt“ og þeir gátu í þeim erfiðu kringumstæðum sem þeir voru í í fangelsinu.

Hann sagði báða mennina hafa haft stjórn á gjörðum sínum og áttað sig á alvarleika hryðjuverka og ólögmæti þeirra. Þá sagði hann þá einnig átta sig á vopnalagabrotunum sem þeir hafa játað að hluta til.

Geðlæknirinn sagði mennina: „Sjá eftir þessum glannaskap sínum“.

Kvíðaröskun og áfallastreita

Varðandi geðmat á Sindra sagði læknirinn að hann þjáðist af kvíðaröskun og áfallastreitu, ásamt því að hafa glímt við þunglyndi og misnotað fíkniefni. Hann sagði Sindra hins vegar ekki vera með persónuleikaröskun.

Hann sagðist standa við matsgerðina enn í dag og að Sindri væri ekki hættulegur í augum læknisfræðinnar. Þá sagði hann að ekkert hafi bent til þess að Sindri hefði logið er geðmatið fór fram.

Læknirinn var spurður út í geðmat geðlækna almennt og sagði hann mikilvægt að muna að hættumat geðlæknis og hættumat lögreglu fari ekki endilega saman. Þá sagði hann að geðmat hefur oft verið misnotað í sögulegu samhengi.

Með athyglisbrest og ofvirkni

Læknirinn sagði Ísidór vera greindan með athyglisbrest og ofvirkni frá unga aldri. Þá hefði hann glímt við áfengisfíkn sem geti magnað upp greiningu hans. Hann glími ekki við persónuleikaraskanir og þá séu skoðanir hans ekki litaðar af geðsjúkdómi, en Ísidór segist sjálfur vera rasisti.

Í æsku upplifði Ísidór rót og óstöðugleika.

Geðlæknirinn sagði að hann hafi rætt samskipti félaganna ítarlega við þá báða. Hann sagði að Ísidór hafi metið svo að glannalegt orðfæri félaganna væri ekki refsivert. Læknirinn sagði þó Ísidór skilja alvarleika málsins og hverjar afleiðingarnar gætu verið.

Læknirinn sagði að í yfirgnæfandi meirihluta leiddi „galgopaleg umræða“ líkt og tvímenningarnir áttu í ekki til voðaverka. Sveinn Andri spurði hvort slík umræða einskorðist við unga karlmenn eða karlmenn og stökk dómurum þá bros.

Sveinn Andri er verjandi Sindra.
Sveinn Andri er verjandi Sindra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Geðlæknirinn sagði að málið sé að mörgu leyti einstakt og hann hefði ekki komið að eins máli áður, en hann hefur komið að geðmatsgerðum í meira en tuttugu ár.

Á mánudag munu fleiri vitni koma fram fyrir dómi og á þriðjudag er gert ráð fyrir að aðalmeðferð málsins ljúki með málflutningi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert