Á þriðja degi aðalmeðferðar í hryðjuverkamálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur var einungis Sindri Snær Birgisson mættur fyrir dómi. Meðákærði, Ísidór Nathansson, var viðstaddur allan fyrsta dag aðalmeðferðarinnar, en var einungis viðstaddur dómþingi í stuttan tíma á föstudag á meðan kærasta hans bar vitni.
Fyrir hádegi komu fimm lögreglumenn, einn sérfræðingur hjá héraðssaksóknara sem höfðu skoðað síma og tölvur sakborninganna og aðstoðarkona vopnasala í vitnaskýrslur.
Í lögregluskýrslum málsins var meðal annars farið yfir netnotkun sakborninganna þar sem þeir höfðu leitað að ýmsu tengdu hægri öfgahyggju og vopnum.
„Rauði þráðurinn í gegnum þessa netsögu“ var öfgahyggja sagði einn lögreglumannanna um netnotkun Sindra. Bætti hann við að öfgahyggjan hafi verið þema tölvu Sindra.
Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Sindra, spurði hvort að það hefði ekki sést önnur notkun og sagði lögreglumaðurinn þá að eitthvað hefði verið um „eðlilegra efni“ en þetta verið rauði þráðurinn.
Sveinn Andri benti á skjáskot af leitarsögu Sindra í einni lögregluskýrslu sem náði yfir 15 mínútna tímabil 17. júní 2022. Þar var í meirihluta tilfella leitað að ýmislegu tengdu hægri öfgahyggju, svo sem „I hate niggers“, og vopnum, en einnig var leitað að gríni Fóstbræðra og lögum á Youtube.
Í leitarsögu félaganna frá árinu 2022 mátti meðal annars sjá leit að Hinsegin dögum, samkynhneigðum, gyðingum, helförinni, barnaníðingum og sterum.
Einn lögreglumannanna nefndi að í tækjum Ísidórs hafi verið til myndbönd tengd öfgahyggju og mikið af þeim hafi verið mjög óhugnanleg. Nefndi hann að meðal annars hefði verið myndskeið er vörðuðu limlestingar. „Mjög ljót myndbönd. Mikið af þeim,“ sagði lögreglumaðurinn.
Í tölvu Ísidórs fundust meðal annars myndskeið tekin úr bifreið. Í öðru myndskeiðinu sést bifreið ekið að stórmoskunni í Reykjavík og í hinu er ekið að spítalakjarnanum við Hringbraut.
Í aðalmeðferð málsins hefur mikið verið minnst á voðverk Ástralans Brenton Tarrant sem myrti 51 á Nýja Sjálandi árið 2019.
Tarrant streymdi myndskeiði af árásinni í beinni útsendingu á Facebook. Myndskeiðið vistaði Ísidór á tölvu sína undir heitinu „brent er guð“ og sendi á Sindra.
Sindri sagði í skýrslutöku á fimmtudag að um væri að ræða „viðbjóðslegt myndband“. Hann sagði að þeir hafi ekki rætt myndskeiðið neitt sérstaklega og að Ísidór hafi sent honum það óumbeðið.
Mikið var um 1.500 blaðsíðna stefnuyfirlýsingu norska fjöldamorðingjans Anders Breivik og samtöl Sindra og Ísidórs um hana.
Sérfræðingurinn hjá héraðssaksóknara nefndi að teymi hjá héraðssaksóknara kynnti sér stefnuyfirlýsingu Breivik vel eftir að rannsókn hryðjuverkamálsins hófst. Hún hafði lesið allar 1.500 blaðsíður ritsins spjaldanna á milli og lýsti fyrir dómi í stuttu máli um hvað ritið snýst.
Teymið upptvötaði að sakborningarnir vitnuðu orðrétt í ritið í samskiptum sín á milli nokkrum sinnum, meðal annars hvernig skuli búa til rísin-eitur.
Í samskiptum félaganna um eitrið segir að Þorvaldur væri tilbúinn til að búa til eitrið og smyrja því á hurðarhúna.
Verjendur lögðu áherslu á að ekki hafi komið í ljós fyrr en í lok rannsóknar að Þorvaldur væri köttur Ísidórs, en málflutningur verjanda byggist að miklu leyti á því að samtöl félaganna hafi verið grín.
Sérfræðingur héraðssaksóknara nefndi að Breivik tali um í riti sínu að dylja markmið sín og fremja voðaverk dulbúin, meðal annars með því að klæðast lögreglufatnaði sem geti skapað rugling, líkt og hann gerði.
Sindri leitaði nokkrum sinnum á netinu um lögreglufatnað og aðgerðabúnað og benti Sveinn Andri á að ekki væri neitt sem benti til þess að Sindri hafi keypt búnaðinn sem hann skoðaði samkvæmt einni af lögregluskýrslunum.
Í síma Sindra mátti meðal annars finna myndir af skófatnaði lögreglumanns en Sindri sagði í skýrslutöku á fimmtudag að honum hafi fundist skórnir flottir og var sjálfur að leita sér að góðum gönguskóm á þeim tíma. Því hafi hann tekið myndina.
Þá var til mynd á Snapchat-reikningi Sindra af lögregluskírteini lögreglumanns á höfuðborgarsvæðinu. Myndin var frá árinu 2020.
Sindri leitaði einnig á netinu að upplýsingum um árshátíð lögreglumanna.
Mikið efni var til á tækjum þeirra Sindra og Ísidórs sem sýndi vopn á. Myndir og myndskeið af vopnum og þeim að skjóta úr þeim og ýmis leit á netinu tengda vopnum, hvernig ætti að búa til sprengju, dróna og einnig eitur.
Sindri viðurkenndi fyrir dómi á fimmtudag að þeir höfðu þrívíddaprentað fimm vopn og selt.
Lögreglumaður sem skoðaði tölvu Ísidórs sá að skrám hafi verið eytt af tveimur af þremur hörðum diskum borðtölvu Ísidórs, tæplega 18 þúsund skrám, í september árið 2022. Skrárnar bentu til þrvíddaprentunar á skotvopnum, miðað við heitin á skránum.
Einnig var samskiptaforritinu Signal eytt af tölvunni, en það var forritið sem félagarnir notuðu mikið, en samskipti þess eru dulkóðuð.
Á einu myndskeiði í síma Sindra sést hann segja „ég má kaupa allt hérna“ er hann var í vopnaverslun.
Þá voru myndir og skjáskot úr síma Sindra sýndar dómþingi af ýmsum skotvopnum.
Á nokkrum myndum og myndskeiðum sést skotið úr þrívíddaprentuðu vopni á Nesjavallaleið. Einnig var myndskeið á síma Sindra af honum og félaga hans að skjóta úr rifflum við malarnámu við Bláfjallaveg. Þar sést að níu skotum er hleypt af á einni sekúndu.
Annað myndskeið sýnir Ísidór skjóta úr þrívíddaprentuðu vopni þar sem níu skotum er hleypt af á fimm sekúndum.
Síðust til að bera vitni fyrir hádegi var fyrrverandi aðstoðarkona vopnasala sem kom í vitnaskýrslu á föstudag.
Henni lá mikið niðri fyrir að segja að vopnabransinn á Íslandi væri sjokkerandi.
Hennar aðkoma að málinu er á þann veg að hún var í einhverjum samskiptum við Sindra en faðir hans, Birgir, keypti skotfæri af vopnasalanum árið 2022.
Konan sagði að Birgir hafi haft samband við vopnasalann eftir að lögregla fór að rannsaka son hans vegna 100 skota magasíns sem hann vildi losna við
Samkvæmt vopnalögum er óheimilt að flytja inn hálfsjálfvirka eða handhlaðna fjölskota haglabyssu með skothylkjahólfum sem tekur fleiri en tvö skothylki nema henni hafi verið breytt til samræmis við þennan áskilnað.
Vitnaskýrslum lýkur í aðalmeðferðinni síðdegis. Á morgun fer fram málflutningur saksóknara og verjanda.