Rannsókn lögreglunnar á máli konu sem er grunuð um að hafa ráðið sex ára syni sínum bana á Nýbýlavegi í Kópavogi gengur vel, að sögn Gríms Grímssonar, yfirlögregluþjóns hjá miðlægri rannsóknardeild.
„Við teljum okkur vera með nokkuð skýra mynd af málsatvikum,” segir Grímur.
Konan, sem er fimmtug, var fyrir viku síðan úrskurðuð í áframhaldandi gæsluvarðhald til fjögurra vikna.
„Það tekur alltaf tíma að safna öllum gögnum og þess háttar, þó svo að við séum komin með stóru línurnar í þessu,” bætir Grímur við, spurður hversu langan tíma hann heldur að rannsóknin muni taka.