„Óánægja hjá foreldrunum sjálfum með kerfið“

Fundur var haldinn í gær til að kynna niðurstöðu könnunar …
Fundur var haldinn í gær til að kynna niðurstöðu könnunar sem verður gerð opinber á morgun. Ljósmynd/Colourbox

Arnar Þór Pétursson, stjórnarformaður foreldrafélagsins SAMLEIKS í Kópavogi, segir að sumum foreldrum þyki eins og Kópavogsbær hafi velt byrði leikskólakerfisins yfir á fjölskyldur.

Þó séu jákvæðir hlutir að eiga sér stað eins og veruleg fækkun lokunardaga á leikskólum. Þetta segir hann í samtali við mbl.is.

Á þriðjudag boðaði Kópavogsbær nemendaráð í leikskólum Kópavogs til fundar til að kynna viðhorfskönnun foreldra og starfsfólks á þessum nýju breytingum. Könnunin sjálf verður gerð opinber í dag.

Veruleg fækkun á lokuðum dögum

Hann segir að fundurinn hafi verið greinagóður og vel mættur. Nefnir hann að bæði jákvæðir og neikvæðir hlutir hafi komið fram um nýja kerfið.

„Það komu alveg fram margir jákvæðir hlutir. Þar má helst nefna ánægju með það að það var veruleg fækkun á lokuðum dögum í leikskólunum og mjög jákvætt að leikskólakennarar virtust vera að langstærstum hluta mjög ánægðir með kerfið sem var verið að byggja upp,“ segir hann en bætir við:

„Það kom hins vegar mjög skýrt fram hjá foreldrum á fundinum, og það sem koma fram í könnuninni, að það var óánægja hjá foreldrunum sjálfum með kerfið.“

Aðspurður telur hann að óvæntar lokanir hafi hingað til verið engar síðan nýja kerfið var tekið upp, en beinir þó spurningunni til bæjarins. Hann nefnir þó á móti að það séu fleiri skipulagðir frídagar hjá leikskólunum. Fóru þeir úr 9 dögum í 11 daga.

Kerfið haft neikvæð áhrif á fjárhag fjölskyldna

Nefnir hann að í könnuninni hafi komið fram að nýja kerfið hafi haft neikvæð áhrif á fjárhag fjölskyldna og að foreldrar á fundinum hafi einnig vakið athygli á þessu.

„Þeir upplifa það að það sé í raun og veru verið að velta byrði leikskólakerfisins í Kópavogi yfir á foreldrana – fjölskyldurnar,“ segir Arnar.

Hann segir kostnaðinn hafa hækkað verulega fyrir þá foreldra sem vilja hafa börn í 8 klukkustundir á dag. Eins og greint hefur verið frá þá eru leik­skól­ar bæj­ar­ins gjald­frjáls­ir í sex tíma á dag. Dval­ar­gjöld um­fram sex tíma taka hækk­un­um sem fara stig­vax­andi með aukn­um dval­ar­tíma.

Þá nefnir hann að nokkrum foreldrum á fundinum hafi þótt samráð bæjarins við foreldra vera ábótavant við innleiðingu kerfisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka