Stefnir á útboð í Íslandsbanka í ár

Stefnt er að því að selja hluta af hluta ríkisins …
Stefnt er að því að selja hluta af hluta ríkisins í Íslandsbanka á þessu ári. Samsett mynd

Áætlað er að sala ríkisins á sínum 42,5% hlut í Íslandsbanka verði framkvæmd í tveimur almennum útboðum. Þá er einnig áætlað að ríkið fari í fyrra söluútboðið á þessu ári. Mikil samstaða er innan ríkisstjórnarinnar um að klára sölu Íslandsbanka að fullu á þessu kjörtímabili.

Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi áðan.

Þórdís hef­ur efnt til sam­ráðs í sam­ráðsgátt stjórn­valda um drög að frum­varpi um ráðstöf­un eft­ir­stand­andi eign­ar­hlut­ar rík­is­ins í Íslands­banka. Sam­kvæmt drög­un­um er ráðherra heim­ilað, að feng­inni heim­ild Alþing­is í fjár­lög­um, að ráðstafa þeim eign­ar­hlut sem rík­is­sjóður á í Íslands­banka.

Stefnt að tveimur útboðum

Spurð að því hvort að farið verði í útboð á þessu ári segir hún svo vera. „Við erum að leggja upp með það að minnsta kosti, ef þetta er gert í tveimur skrefum að fyrra skrefið sé á þessu ári, já,“ segir Þórdís.

Sem sagt tvö mismunandi útboð?

„Það er svona uppleggið að við – þetta er heimild að allt að öllu sem eftir stendur – en hvort að það er gert í einu eða tveimur skrefum, við gerum frekar ráð fyrir að þetta sé gert í tveimur skrefum, og þá er fyrra skrefið á þessu ári.“

Framtíð Bankasýslunnar ræðst í framhaldinu

Það var ákveðið eftir síðasta söluferli að það yrðu gerðar breytingar hlutverki Bankasýslu ríkisins og að hún yrði jafnvel lögð niður.

Í þessum tveimur fyrirhuguðum útboðum er ekki gert ráð fyrir þátttöku Bankasýslu ríkisins. Spurð hvort að Bankasýslan verði lögð niður segir hún að það verði að skoðast í framhaldi af sölunni.

„Í þessu frumvarpi er óskað heimildar fjármála- og efnahagsráðherra til þess að fara í þetta verkefni. Hvað síðan verður almennt er bara annað mál. Það er forgangsverkefni að klára þetta. Uppleggið er svona og aðferðin eins opin og gagnsæ og hugsast getur. Almenningur er í forgangi þegar kemur að því að bjóða í þetta og fara í þetta söluferli,“ segir Þórdís.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka