Lokar hringnum í nýrri bruggverksmiðju

Valgeir Valgeirsson bruggmeistari í nýja húsnæðinu.
Valgeir Valgeirsson bruggmeistari í nýja húsnæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fram­leiðsla er kom­in á fullt í nýrri brugg­verk­smiðju Ölvis­holts í Hval­eyr­ar­holti í Hafnar­f­irði. Verk­smiðjan var áður til húsa í gam­alli hlöðu og fjósi aust­an við Sel­foss en er núna kom­in í „gott iðnaðar­hús­næði” að sögn brugg­meist­ar­ans Val­geirs Val­geirs­son­ar, sem hef­ur snúið aft­ur „heim” til Ölvis­holts eft­ir ára­langa fjar­veru í öðrum brugg­hús­um.

„Við erum að gera þetta al­menni­lega, eins og þetta átti alltaf að verða,” seg­ir Val­geir, spurður út í nýja staðinn. Hann seg­ir ákveðna end­ur­ræs­ingu fel­ast í nýju verk­smiðjunni. Hús­næðið hafi verið sniðið sér­stak­lega að þeirra þörf­um, bjór­teg­und­ir verið end­ur­skipu­lagðar og nýtt vörumerki sé jafn­framt komið í gagnið.

Aft­ur heim

Ölvis­holt hóf starf­semi árið 2007 og er næ­stelsta hand­verks­brugg­hús lands­ins á eft­ir bruggs­miðjunni Kalda. Val­geir var þá brugg­meist­ari en flutti sig síðar um set yfir til Ölgerðar­inn­ar, þar sem hann starfaði meðal ann­ars í Borg brugg­húsi. Í fram­hald­inu fór hann yfir til RVK Brewery þar sem hann var meðeig­andi, allt þar til hann ákvað að loka hringn­um ef svo má segja og gekk aft­ur til liðs við Ölvis­holt.

Upp­skrift­ir í stöðugri þróun

Spurður nán­ar út í end­ur­skipu­lagn­ingu teg­unda seg­ir hann að út­lit þeirra, fyr­ir utan Lava, hafi verið tekið í gegn, meiri áhersla lögð á bjór­ana sem þeir eru ánægðast­ir með, auk þess sem ein­hverj­um upp­skrift­um var breytt, sum­um hverj­um göml­um upp­skrift­um frá Val­geiri.

Valgeir fær sér sopa af bjór.
Val­geir fær sér sopa af bjór. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

„Vinnu­til­hög­un­in hjá mér er sú að all­ar upp­skrift­ir hjá mér eru alltaf í stöðugri þróun. Allt sem er gott get­ur alltaf verið betra,” grein­ir hann frá.

Hátt í 10 teg­und­ir eru í boði hverju sinni hjá Ölvis­holti. Innt­ur eft­ir því hver sé mest seldi bjór brugg­húss­ins nefn­ir hann Sessi­on IPA en bend­ir á að þeir séu einnig komn­ir með bjór­inn Classic, auk létt­bjórs.  

„Svo erum við með Lava áfram, verðlauna­bjór­inn okk­ar. Hann helst alltaf óbreytt­ur.”

„Rétt að byrja“

Fjór­ir starfs­menn eru í fullu starfi í brugg­hús­inu. Til stend­ur jafn­framt að vera með sal til út­leigu í Hval­eyr­ar­holt­inu, til að mynda fyr­ir veisl­ur, brúðkaup og ferm­ing­ar. Mögu­lega verður hægt að koma þangað einnig í bjórs­mökk­un.

„Við erum rétt að byrja,” seg­ir Val­geir, ánægður með að hafa lokað hringn­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert