Ný Þjóðarhöll forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ákvörðun um byggingu nýrrar Þjóðarhallar er forgangsfjárfesting af hálfu hins opinbera í samstarfi við Reykjavíkurborg sem fjármagnar sinn hluta.

Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra í samtali við mbl.is í kjölfar blaðamannafundar um hönnunar- og framkvæmdarfasa nýrrar Þjóðarhallar. 

Ráðgert er að ný Þjóðarhöll sem tekur 8.600 manns í sæti verði tekin í gagnið á árunum 2027 til 2028 og kostnaður við verkefnið verði um 15 milljarðar. 

Einar Þorsteinsson borgarstjóri, Jón Arnór Stefánsson formaður stjórnar þjóðarhallar, Ásmundur …
Einar Þorsteinsson borgarstjóri, Jón Arnór Stefánsson formaður stjórnar þjóðarhallar, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra kynntu verkefnið í Laugardalshöll. mbl.is/Kristinn Magnússon

Forgangsraða opinberum fjárfestingum í þágu Þjóðarhallar 

„Við erum með í öllum gildandi áætlunum fjármagn sem á að nýta í opinberar fjárfestingar og opinberar fjárfestingar eru bara hluti af því hvernig þú stýrir efnahagsmálum. Spurningin er í hvaða opinberu fjárfestingar á að fara á hverjum tíma,“ segir Þórdís Kolbrún þegar hún er spurð hvernig fjármagna eigi byggingu nýrrar Þjóðarhallar. 

Þórdís segir ríkisstjórnina hafa sammælst um að Þjóðarhöll sé forgangsverkefni af hálfu hins opinbera, sem þýði einfaldlega að að þeir milljarðar sem fara í uppbyggingu þjóðarhallar fara ekki í aðrar opinberar fjárfestingar. 

„Við erum með ákveðin verkefni inni sem þarf ýmist að hliðra til eða færa, til þess að forgagnsraða í þessa þágu.“

„Ákvarðanir sem þarf að púsla saman í fjármálaáætlun“

Sem dæmi um aðrar fjárfestingar á teikniborði ríkisstjórnarinnar eru fangelsi á Litla-Hrauni. Þórdís segir það þó ekki þannig að þegar loka þurfi fjárlögum eða fjármálaáætlunum sé skynsamlegt að keyra aðrar opinberar fjárfestingar niður í núll. „Það gerum við ekki.“

„Þannig að við erum alltaf með fjármagn í opinberar fjárfestingar og ríkisstjórnin hefur sammælst um það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að forgangsraða þeim fjármunum í uppbyggingu þjóðarhallar.“ 

Verður hægt að fara í bæði verkefni, byggingu Þjóðarhallar og byggingu nýs fangelsis á Litla-Hrauni? 

„Þetta eru auðvitað verkefni sem er farið í yfir einhvern tíma. Þannig að það þarf að ráðstafa ákveðnu fjármagni yfir eitthvert árabil.“ 

En eru þessi verkefni ekki áætluð á svipuðum tíma? 

„Jú og það eru fleiri verkefni sem eru ýmist inni í áætlunum eða á teikniborði og það þarf einfaldlega að púsla því saman þannig að það gangi upp. Hér er verið að huga að því að halda stórmót eftir um það bil sjö ár þannig að þetta eru ákvarðanir sem þarf að púsla saman í fjármálaáætlun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert