Eitt tilboð í nýja brú yfir Ölfusá

Brúin verður 330 metra löng stagbrú með 60 metra háum …
Brúin verður 330 metra löng stagbrú með 60 metra háum turni á Efri-Laugardælaeyju. Tölvuteikning

Vegagerðin auglýsti alútboð vegna verksins á Evrópska efnahagssvæðinu í mars á síðasta ári. Frá þessu er greint á vefsíðu Vegagerðarinnar.

Í apríl voru svo opnaðar umsóknir og bárust umsóknir frá fimm þátttakendum sem allir uppfylltu þau skilyrði sem sett voru í útboðsauglýsingunni og voru metnir hæfir. Viðkomandi fengu í kjölfarið send útboðsgögn vegna samkeppnisútboðsins í lok nóvember.

ÞG verktakar voru þeir einu af þessum fimm sem skiluðu inn tilboði. Um er að ræða upphafstilboð.

Vilja undirrita í júlí

Vegagerðin hyggst fara yfir tilboðið og er stefnan sett á að fara í samningsviðræður við ÞG verktaka í byrjun apríl. Að viðræðunum loknum verður gefin upp upphæð endanlegs tilboðs, vonandi í júní, að því er fram kemur í tilkynningunni. Er stefnt að undirritun verksamnings í júlí.

„Verktaki ber ábyrgð á endanlegri hönnun verksins, brúar, vega og gatnamóta, og hefst vinnan við hönnunina í kjölfar undirritunar verksamnings. Forhönnun liggur fyrir sem þýðir að meginlínur hafa verið dregnar í útliti brúarinnar og legu vega. Undirbúningur á verkstað gæti hafist á þessu ári en áætlað er að brúin verði opnuð fyrir umferð haustið 2027,“ segir í tilkynningu.

330 metra stagbrú

Ný brú yfir Ölfusá er hluti af færslu Hringvegarins út fyrir þéttbýlið á Selfossi. 

„Brúin verður 330 metra löng stagbrú með 60 metra háum turni á Efri-Laugardælaeyju. Brúargólf verður 19 m breitt og er gert ráð fyrir 2+1 vegi með aðskildum akstursstefnum ásamt göngu- og hjólaleið. Einnig er gert ráð fyrir göngu- og hjólaleið undir brúna á báðum árbökkum. 

Gert er ráð fyrir steyptum endastöplum, brúargólfi með stálbitum og steyptu gólfi og turni úr stáli. Við forhönnun brúarinnar var miðað við aðstæður á svæðinu þar sem búast má við bæði jarðskjálftum og flóðum. Í brúnni er gert ráð fyrir jarðskjálftaeinangrun og forspenntum bergfestum í undirstöðum turnsins,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert